100 ára afmæli fullveldis - Hólamenn taka þátt

Í gær voru kynnt 100 verkefni sem hafa hlotið vilyrði fyrir fjárstyrk til þátttöku í dagksrá aldarafmælis fullveldis Íslands. 

Tvö af þessum verkefnum tengjast beint hingað heim að Hólum. Annars vegar hlýtur Háskólinn á Hólum kr. 600 þúsund, til verkefnisins Áhrif skólahalds á Hólum í Hjaltadal. Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á hlutverk og áhrif skólahalds á Hólum á þróun íslensks samfélags frá fullveldi til framtíðar. Sérstaklega verður horft til áhrifa Hólamanna á umhverfi sitt með hliðsjón af sjálfstæði, byggðaþróun, menntunarstigi og tækniframförum. Haldin verður tveggja daga ráðstefnu að Hólum í Hjaltadal. Ráðstefnan verður öllum opin og munu fræðimenn og fyrrverandi nemendur skólans halda erindi um hugðarefni sín sem tengjast yfirskriftum málstofa en þær eru sjálfstæði, byggðaþróun, menntun og tækniframfarir.

Og hins vegar hlýtur Sögusetur íslenska hestsins vilyrði fyrir styrk að upphæð kr. 500 þúsund. Verkefni Sögusetursins ber yfirskriftina Íslenski hesturinn – þjóðarhesturinn – efling og uppgangur við fullveldi og er ætlunin að setja upp sýningu um íslenska hestinn og hestamennsku, stöðu hestamennsku um fullveldið og framfarasókn á fullveldistímanum. Í sýningunni kristallast hvernig frjáls og fullvalda þjóð hefur tryggt vöxt og viðgang síns þjóðarhests og komið honum á framfæri við heimsbyggðina og skapað honum þar, í samstarfi við aðrar þjóðir þar sem áhugi hefur verið til staðar, viðgang og virðingu. Sýningin verður fyrst sett upp á Landsmóti hestamanna 2018 en síða varanlega í Skagafirði.

Nánar má lesa um úthlutunina og verkefnin 100, á vef 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is