Ábyrg ferðaþjónusta og samfélagsleg ábyrgð | Háskólinn á Hólum

Ábyrg ferðaþjónusta og samfélagsleg ábyrgð

Í síðustu viku undirrituðu tveir fulltrúar Ferðamáladeildar yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu, f.h. deildarinnar og Ferðaþjónustunnar á Hólum, ásamt fulltrúum 250 ferðaþjónustufyrirtækja. 
 
Hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu er leiðarstef í öllum námskeiðum Ferðamáladeildar og starfi Ferðaþjónustunnar á Hólum. Með undirritun yfirlýsingarinnar erum við búin að ákveða að setja okkur markmið í anda neðangreindra áhersluþátta og birta reglulega upplýsingar um þau og árangur. Markmið sem þessi skulu vera í sífelldri endurskoðun og aldrei má missa sjónar af þeim. 
 
Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. 
 
Áhersluþættirnir eru:
1. Ganga vel um og virða náttúruna.
2. Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi.
3. Virða réttindi starfsfólks.
4. Hafa jákvæði áhrif á nærsamfélagið.
 
Markmið hvatningarverkefnisins er m.a. að:
Styðja við ferðaþjónustufyrirtæki sem vilja vinna markvisst að sjálfbærni og samfélagsábyrgð.
Setja fram skýr skilaboð frá fyrirtækjum um að þau vilji vera ábyrg.
Draga fram það sem vel er gert á sviði sjálfbærni og samfélagsábyrgðar í ferðaþjónustu.
Vera hvatning fyrir fyrirtæki sem ekki eru byrjuð að huga að sjálfbærni og samfélagsábyrgð.
 
Yfirlýsingunni verður fylgt eftir með fræðsludagskrá fyrir fyrirtæki um samfélagsábyrgð og sjálfbærni.
 
Aðstandendur verkefnisins eru Íslenski ferðaklasinn og Festa - miðstöð um samfélagslega ábyrgð, í samstarfi við Ferðamálastofu, SAF, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála, markaðsstofur landshlutanna, Höfuðborgarstofu og Safe Travel. 
 
Verndari verkefnisins er forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson. Ræða forsetans var lituð af nýlegum erfiðum fréttum úr ferðaþjónustunni og talaði hann ákveðið og tæpitungulaust til viðstaddra um verkefnin framundan í anda ábyrgrar ferðaþjónustu. 
 
Anna Vilborg Einarsdóttir 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is