Áhrif af þunga knapa á íslenska hesta á tölti - nýjar vísindagreinar

Nýlega birtu vísindamenn við Hestafræðideild Háskólans á Hólum, í samstarfi við sænska landbúnaðarháskólann í Uppsala (SLU), tvær vísindagreinar  í evrópska tímaritinu Animal og eru þær nú aðgengilegar öllum til aflestrar á netinu. Greinarnar byggja á sömu rannsókn sem var gerð við Hólaskóla.
 
Markmið rannsóknarinnar var að skoða áhrif af mismunandi þunga knapa á íslenska hesta á tölti, annars vegar hversu erfitt töltið væri með því að mæla hjartslátt og blóðþætti (t.d. mjólkursýru) og hins vegar hvort hreyfingar á tölti breyttust með auknum þunga knapa.
 
Í rannsókninni voru notaðir átta fullorðnir skólahestar og einn reyndur knapi. Hestarnir voru settir í þjálfunarpróf, þar sem þungi knapans með hnakk var smám saman aukinn (með því að bæta við blýi), frá 20% af þunga hestsins, til 25, 30 og 35%. Þjálfunarprófið fór fram á tölti (hraði 5,4 m/s eða rúmir 19 km/klst) og 642 m voru riðnir með hverja þyngd (tveir hringir á 300 m hringvelli, ysta sporaslóð),  með um 5 mínútna pásu á milli þyngda til að bæta við vigt og taka blóðsýni. Púlsmælir mældi hjartslátt hestanna og hreyfingarnar á tölti voru myndaðar með háhraðamyndavél.
 
Niðurstöður (fyrri greinin) sýndu að við aukinn þunga knapa aukast hjartsláttur og mjólkursýra í blóði. Það þýðir almennt að eftir því sem knapinn er þyngri er erfiðið meira fyrir hestinn, en hér er gert ráð fyrir að reiðfærni knapans sé hin sama. Þá kom fram talsverður einstaklingsmunur á hversu erfitt þjálfunarprófið var fyrir hestana . 
 
Niðurstöður (seinni greinin) sýndu að aukinn þungi knapa hafði ekki áhrif á takt eða fótlyftu á tölti. Hins vegar varð skrefið heldur styttra, skreftíðni jókst, og stöðutími fóta á jörðu lengdist (jarðbundnara) sem lýsti sér í lengri tvístuðningi fóta en styttri einstuðningi (hálfsvif minnkar). Þetta þýðir að aukinn þungi knapa hefur áhrif á ákveðna þætti í hreyfingum á tölti hjá hesti og getur hugsanlega haft neikvæð áhrif á huglægt mat á tölti t.d. í keppni.
 
Í rannsókninni kom fram að fullorðnir og vel þjálfaðir íslenskir reiðhestar réðu tímabundið vel við að bera knapa með gott jafnvægi sem er allt að 35% af þeirra eigin þyngd. Höfundar vekja athygli á að margir fleiri þættir en þungi knapans geta haft áhrif á erfiði hestsins. Þar má nefna þætti eins og holdafar hestsins, þjálfunarstig hans, ganglag og sköpulag og ekki síst jafnvægi og reiðstíll knapans. Hins vegar má almennt ráðleggja að eftir því sem knapar eru þyngri er enn meiri ástæða fyrir þá að velta fyrir sér hvað þeir leggja að hestinum þegar þeir eru á baki, s.s. hversu hratt og langt er riðið.
 
Fyrri greinin heitir „Áhrif af þunga knapa á íslenska hesta á tölti: lífeðlisfræðileg svörun“ (Enskt heiti: The effect of rider weight and additional weight in Icelandic horses in tölt: part I. Physiological responses). Sjá slóðina:  https://doi.org/10.1017/S1751731117000556
 
Seinni greinin heitir. „Áhrif af þunga knapa á íslenska hesta á tölti: hreyfifræðileg svörun“ (Enskt heiti: The effect of rider weight and additional weight in Icelandic horses in tölt: part II. Stride parameters responses). Sjá slóðina:  https://doi.org/10.1017/S1751731117000568
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is