Nefna má Hóladómkirkju, Auðunarstofu, Nýjabæ, fornleifauppgröft, byggingar skólans og náttúrufegurð. Gefnir hafa verið út fræðslubæklingar fyrir ferðamenn, meðal annars með söguslóð sem leiðir gesti um markverða staði og segir frá nokkrum brotum úr sögu staðarins. Skólinn hefur jafnfræmt gefið út göngukort með leiðum um Tröllaskaga. Kjósi fólk að fara í gönguferðir sem eru ekki lengri en svo að mögulegt sé að koma aftur gangandi heim til Hóla sama dag er um marga kosti að velja, bæði merktar leiðir og ómerktar. Unnt er að velja á milli stuttra göngutúra og lengri gönguferða, allt eftir óskum hvers og eins. Merktar hafa verið leiðir í Gvendarskál, í Námuna (þaðan sem grjótið var tekið í kirkjuna) og upp á Elliða. Um Hólaskóg hlykkjast ótal skemmtilegir stígar.
Vinsælt hefur verið fyrir hópa og starfsmannafélög að heimsækja staðinn og settir hafa verið saman pakkar fyrir slíka hópa sem m.a geta innihaldið mat, gistingu, bjórkynningar, ratleik, söng, gítarspil og fleira.
Á sumrin er boðið upp á margháttaða menningardagskrá, og ber Barokkhátíðina í júní og Hólahátíðina í ágúst þar einna hæst. Sérstaka dagskrá sumartónleika í kirkjunni má nálgast á vef hennar, auk þess em þeir eru auglýstir í dagskrárbæklingnum Sjónhorni.