Annasamir dagar

Nú styttist í lok skólaársins, með tilheyrandi próftíð og verkefnaskilum. Verkefnaskil geta verið með margvíslegu sniði og
svo er líka ýmislegt annað að gerast, tengt skólanum.

Við sögðum frá því í gær að reiðkennaraefnin okkar myndu taka þátt í Hestadögum 2017, með kennslusýningu um
gæðingafimi
. Við rákumst á þessa mynd af hópnum á suðurleið, á Facebook-síðu viðburðarins.
Það eru þau Mette Mannseth og Anton Páll Níelsson sem eru kennararnir á bak við þetta verkefni.

Á leið á Hestadaga 2017
Nemendur Hestafræðideildar á leið á Hestadaga 2017.
 
Úr Ferðamáladeildinni eru helstu fréttir þær að í gær stóð hún, ásamt SSNV og Landsvirkjun, fyrir opnum súpufundum um samspil orku- og ferðamála.
Fundirnir voru tveir, annar hér heima á Undir Byrðunni og hinn í Eyvindarstofu á Blönduósi.
Framundan eru staðbundnar lotur: Brautskráningarnemar munu koma og kynna BA-ritgerðir sínar í næstu viku, og í viku 19 koma svo nemendur á 1. ári.
Þeir munu kynna sér náttúru Íslands í vettvangsferðum með þeim Skúla Skúlasyni og Stefáni Óla Steingrímssyni. Síðan taka þeir þátt í námskeiði um
göngustígagerð, undir styrkri stjórn Kjartans Bollasonar. - Þetta tvennt er mikilvægt í námi og þjálfun til landvarðarréttinda, en
slík réttindi eru innifalin í ferðamálanáminu, í samvinnu við Umhverfisstofnun sem gefur skírteinin út.
 
Frá göngustíganámskeiði 2012
Frá göngustíganámskeiði 2012.
 

Eftir helgina mun Ólafur Sigurgeirsson fara til móts við diplómunema í fiskeldisfræði, og halda með þeim í vettvangsferð í fyrirtæki
og stofnanir á Suður- og Suðvesturlandi.

Meðal annarra verkefna sem starfsmenn og framhaldsnemar Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar hafa unnið að á undanförnum vikum
og mánuðum er undirbúningur að sjöttu vistfræðiráðstefnu VistÍs, sem verður haldin hér heima að Hólum og hefst síðdegis í dag, 28. apríl.
Þess má geta að meðal aðalfyrirlesara að þessu sinni er Bjarni K. Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Hólum.

Í lokin má svo segja frá því að nú stendur hér yfir námskeið í trjáfellingum og grisjun með keðjusög.
Námskeiðið er á vegum endurmenntunardeildar LbhÍ, í samvinnu við Hóladeild Skógræktarfélags Skagfirðinga.

Og, úr því minnst er á námskeið langar okkur að vekja athygli á  torfhleðslunámskeiði sem Fornverkaskólinn
gengst fyrir og verður haldið að Tyrfingsstöðum 26. - 28. maí.

Frá námskeiði í trjáfellingum vorið 2016.
 
Að lokum minnum við á að nú er opið fyrir umsóknir og verður svo, fram til 5. júní.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is