Annasöm helgi hjá hestamönnum

Það hefur varla farið fram hjá lesendum Hólavefsins að ýmsir viðburðir tengdir hestamennsku
fóru fram um helgina, þar á meðal Hestadagar 2017. Og Hólamenn komu víða við sögu.

Á föstudagskvöldið bauð Fræðslunefnd Harðar, í samstarfi við Hrímni/Export hesta upp á 
sýnikennslu í reiðhöll félagsins í Mosfellsbæ. Þar sýndu Meistaradeildarknaparnir og Hólamennirnir
Helga Una Björnsdóttir, Þórarinn Ragnarsson og Hanna Rún Ingibergsdóttir listir sínar á völdum
gæðingum og veittu góð ráð. Þema þessarar sýningar var þjálfun reiðhesta með áherslu á gangtegundir.
Allur ágóði rann til fræðslunefndar fatlaðra hjá Herði en félagið er einmitt þekkt fyrir gott starf á því sviði.

 
Helga Una Björnsdóttir og Besti frá Upphafi. Mynd fengin á Facebook-síðu KS-deildarinnar í hestaíþróttum.

Reiðkennaraefni Hólaskóla – nemendur á 3. ári til BS-gráðu í reiðmennsku og reiðkennslu – héldu í suðurveg og buðu á laugardaginn til glæsilegrar kennslusýningar þar sem þemað var gæðingafimi.  

Markmiðið var  að auka skilning áhorfenda á gæðingafimi sem keppnisgrein, hvort sem er fyrir atvinnumenn eða áhugamenn, yngri sem eldri.  Sýningin var haldin í Samskipahöllinni (Sprettshöllinni) fyrir hádegi á laugardaginn en eftir hádegi var síðan blásið til keppni í greininni. Þar tefldi  hópur valinkunnra knapa fram gæðingum sínum en að lokum var það Freyja Amble Gísladóttir sem stóð uppi  sem sigurvegari.  Gæðingafimi er nýleg keppnisgrein og minna þekkt en margar aðrar. Við munum því fjalla sérstaklega um hana fljótlega hér á vefnum.

Líkamsbygging hestsins útskýrð
Líkamsbygging hestsins útskýrð. Mynd: Elisabeth Jansen.

Á laugardagskvöldið var stórsýningin Ræktun 2017 haldin í Fákaseli. Upphafsatriði hennar var í höndum verknema Hólaskóla, en langflestir nemenda á 2. ári  í Hestafræðideild eru um þessar mundir í verknámi í þjálfun, á tamningastöðvum á Suðurlandi. Sýningin var send út beint, og hægt er að nálgast myndskeið frá einstökum hlutum hennar á vef Hestafrétta.

Hólanemar á Ræktun 2017. @hestafrettir.is

Á sunnudaginn var Mette Mannseth, yfirreiðkennari skólans, síðan mætt að Svaðastöðum á Sauðárkóki, þar sem hún og Hnokki frá Þúfum tóku þátt í sýningunni Æskan og hesturinn. Guðbjörg Viðja Antonsdóttir „söng undir“ atriðinu, við undirleik ónefndra tónlistarmanna. Helga Rósa Pálsdóttir hjá æskulýðsnefnd hestamannafélagsins Skagfirðings birti þetta myndband á YouTube og hefur gefið okkur góðfúslegt leyfi til að nota það hér:

Æskan og hesturinn 2017. @Helga Rósa Pálsdóttir.
 
 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is