Ástralskur dósent dvelur við Háskólann á Hólum | Háskólinn á Hólum

Ástralskur dósent dvelur við Háskólann á Hólum

Dr. Rosemary Black, frá Charles Sturt University (CSU) í  Port Macquarie á austurströnd Ástralíu, dvelur nú við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Rosemary, sem er í sex mánaða rannsóknarleyfi, kom að Hólum frá Alta í Noregi, þar sem hún hafði dvalið í tvo mánuði. Í Alta vann hún að rannsóknarverkefni um leiðsögn á Svalbarða, ásamt samstarfsfólki við Háskóla Norðurslóða. Þá nýtti húm tímann þar til þess að skrifa greinar í rannsóknatímarit. Hún mun dvelja á Hólum í tvo mánuði og taka þátt í kennslu og rannsóknum innan Ferðamáladeildar, ásamt því að halda áfram greinaskrifum.
 
Rosemary er með doktorsgráðu frá Monash University í Melbourne og er dósent við ferðamáladeild Charles Sturt University, þar sem áhersla er á vistvæna ferðaþjónustu og túlkun upplýsinga til ferðamanna. „CSU er lítill svæðistengdur háskóli, með öflugt grunnnám sem boðið er uppá í blönduðu námi líkt og er hér við Háskólann á Hólum og því tel ég að við getum lært mikið hvert af öðru“ segir Rosemary. „Ég er mjög ánægð með að vera hér við háskólann og læra meira um ferðamál á Norðurslóðum, þar sem aðstæður eru svo ólíkar aðstæðum í Ástralíu“.  
 
Sérsvið Rosemary á sviði kennslu og rannsókna eru sjálfbær ferðaþjónusta, leiðsögn, umhverfistúlkun og samfélagslegir þættir tengdir stjórnun náttúruauðlinda. Áður en hún gerðist háskólakennari starfaði hún við stjórnun innan verndaðra svæða, við varðveislu og þróun samfélaga og við leiðsögn í ævintýraferðaþjónustu. Hún leggur áherslu á að stunda hagnýtar rannsóknir sem miða að því að leysa raunhæf verkefni. Þetta vill hún gera í samvinnu við atvinnuvegi og samfélög, svo sem á vernduðum svæðum og þjóðgörðum, og í samstarfi við félagasamtök og fyrirtæki í ferðaþjónustu. 
 
Rosemary hefur gefið út sex bækur, birt yfir 60 ritrýndar greinar og aflað yfir 40 milljóna ísl. króna í rannsóknastyrki. Auk þessa situr Rosemary í ritstjórn þriggja alþjóðlegra tímarita á sviði ferðamála. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is