Brautskráning að vori

Brautskráning frá Háskólanum á Hólum fór fram föstudaginn 9. júní sl. Athöfnin fór fram í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð, og var með hefðbundnum hætti, þar sem fléttað var saman stuttum ávörpum og tónlistaratriðum, auk brautskráninganna sjálfra. Fyrst steig í ræðustól Erla Björk Örólfsdóttir rektor, en síðan ávarpaði ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, viðstadda. Deildarstjórar sögðu einnig nokkur orð áður en þeir brautskráðu sína nemendur og veittu auk þess nokkarar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í námi.

Laufey Haraldsdóttir, deildarstjóri Ferðamáladeildar, brautskráði 17 nemendur með diplómu í viðburðastjórnum, einn með diplómu í ferðamálafræði og 19 með BA-gráðu í sömu fræðigrein. Söru Benediktsdóttur hlotnaðist viðurkenning fyrir heildarnámsárangur í BA-námi og Hrafnhildi Grímsdóttur, fyrir góðan árangur í diplómunámi. 

Sveinn Ragnarsson, deildarstjóri Hestafræðideildar brautskráði einn nemanda með diplómu og 18 með BS-próf  í reiðmennsku og reiðkennslu. Þar þóttu þær Arnhildur Helgadóttir og Sarah Høegh skara fram úr og hlutu báðar viðurkenningu fyrir það.

Bjarni Kristófer Kristjánsson, sem nýlega sneri aftur til starfa sem deildarstjóri eftir nokkurra mánuða rannsóknaleyfi, brautskráði einn með diplómu í fiskeldisfræði og annan með MS í sjávar- og vatnalíffræði. 

Dagskránni lauk með því að Hjördís Garðarsdóttir, BA í ferðamálafræði, flutti ræðu fyrir hönd nýbrautskráðra.

Að þessu sinni annaðist Kammerkór Skagafjarðar tónlistarflutning, undir styrkri stjórn Helgu Rósar Indriðadóttur. Athöfninni stýrði Ingibjörg Sigurðardóttir, lektor við Ferðamáladeild. Að athöfn lokinni bauð skólinn til kaffisamsætis, í umsjón Ferðaþjónustunnar á Hólum. 

Eins og verða vill gátu því miður ekki allir nemendurnir verið viðstaddir, en fjarstöddum berast hamingjuóskir heiman frá Hólum.

Myndir: Guðmundur B. Eyþórsson
 
 
 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is