Brautskráning í dag | Háskólinn á Hólum

Brautskráning í dag

Í dag fór fram brautskráning frá öllum deildum Háskólans á Hólum. Alls voru 34 nemendur brautskráðir, þar af einn með tvær gráður. Frá Hestafræðideild hlutu 12 manns lærdómstitilinn BS í reiðmennsku og reiðkennslu, og einn diplómu í sömu grein - leiðbeinendapróf. Frá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild útskrifuðust tvær stúlkur, með MS í sjávar- og vatnalíffræði. Og frá Ferðamáladeild voru veittar 15 diplómur í viðburðastjórnun, fjórar BA-gráður í ferðamálafræði og og ein MA-gráða í sömu grein.

Sérstaka viðurkenningu fyrir námsárangur hlutu þær Árný Oddbjörg Oddsdóttir (BS í reiðmennsku og reiðkennslu), Guðríður Ásgeirsdóttir (diplóma í viðburðastjórnun) og Ragnheiður Mjöll Baldursdóttir (BA í ferðamálafræði).

Auk þess sem rektor og deildarstjórar ávörpuðu viðstadda, flutti Ragnheiður Mjöll ávarp fyrir hönd brautskráningarnema. Einsöngvari við athöfnina var Aðalbjörg Rós Indriðadóttir og undir lék Jóhann Bjarnason.

Venju samkvæmt lék sólin við gesti og þjóðfánar brautskráningarnema blöktu við hún á Hólahlaði.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is