Brautskráning og afmælisveisla

Í dag fór fram brautskráning  frá Háskólanum á Hólum,  við hátíðlega athöfn í Hóladómkirkju. Venju samkvæmt hófst dagskráin með ávarpi rektors, Erlu Bjarkar Örnólfsdóttur en síðan sté mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, í pontu. Tilefni heimsóknar hans er að um þessar mundir fagnar Ferðamáladeild skólans 20 ára afmæli.

Deildarstjórar hinna þriggja deilda Háskólans a Hólum brautskráðu síðan sína nemendur, hver á fætur öðrum. Alls brautskráðust 13 nemendur í dag, allir með diplómu af grunnnámsstigi háskólans. Fjórir í viðburðastjórnun, tveir í ferðamálafræði, einn í reiðmennsku og reiðkennslu og sex í fiskeldisfræði. Þar með eru brautskráningar frá Háskólanum á Hólum í ár orðnar alls 79.

Síðastur á mælendaskrá var nýútskrifaður fiskeldisfræðingur, Örn Smárason, sem talaði fyrir hönd brautskráningarhópsins. Athöfninni stýrði Ólafur Sigurgeirsson, kennari í fiskeldisfræði og þau Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Sigfús Benediktsson sáu um tónlistarflutning.

Að athöfn lokinni var viðstöddum boðið til veglegs kaffisamsætis, þar sem Skúli Skúlason fyrrverandi Hólarektor tók til máls og flutti Ferðamáladeildinni árnaðaróskir.

Eins og sjá má af meðfylgjandi myndum skartaði Hjaltadalurinn sínu fegursta og Skagafjörðurinn skein svo sannarlega við sólu.

Starfsmenn skólans þakka gestum fyrir komuna  og óska þeim góðrar heimferðar. Nýbrautskráðum fylgja hamingjuóskir, um leið og minnt er á að þeir eru ávallt velkomnir aftur heim að Hólum.

Myndirnar tók Ingibjörg Sigurðardóttir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is