Doktorsvörn Godfrey Kubiriza

Fimmtudaginn 15. júní, kl. 14, mun Godfrey Kubiriza verja doktorsritgerð sína The effects of dietary lipidsoxidation on farmed fish (Áhrif þránunar í fóðri á eldisfisk) við Háskóla Íslands. Doktorsvörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands, en Godfrey mun halda æfingafyrirlestur í Verinu þriðjudaginn 13. júní kl. 15:00 og þangað eru allir velkomnir. Leiðbeinandi Godfreys í doktorsverkefninu var Helgi Thorarensen, en aðrir í doktorsnefndinni voru Ólafur Sigurgeirsson, Tumi Tómasson frá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Jón Árnason frá Matís og Sigurður Snorrason frá Háskóla Íslands. Godfrey er lektor við Dýrafræðideild Makerere Háskólans í Úganda. Fiskeldis- fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum hefur einmitt átt gott samstarf við Makerere um kennslu í fiskeldi ásamt Sjávarútvegsskóla Sameinðuðu þjóðanna.
 
Godfrey kom upphaflega til Hóla 2011 á vegum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna þar sem hann sat námskeið um fiskeldi og vann verkefni um tölfræðigreiningu í eldistilraunum undir leiðsögn Helga Thorarensen. Rannsóknir í doktorsritgerð Godfreys spanna vítt svið, en megináhersla var lögð á áhrif þránunar í fóðri á eldisfiska. Einnig rannsakaði Godfrey möguleika á því að nota ýmis hráefni frá Austur Afríku til fóðurgerðar, bæði ferskvatnsrækju úr Viktoríuvatni og prótein úr baunum, auk þess sem hann hélt áfram að skoða tilraunauppsetningu og tölfræðiúrvinnslu í eldistilraunum. Niðurstöður rannsókna Godfreys eru mikilvægt framlag til fóðurgerðar fyrir eldisfisk og þar með uppbyggingu á fiskeldi í Austur-Afríku. Godfrey hefur þegar birt rannsóknir sínar í viðurkenndum vísindatímaritum ásamt því að halda fyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum um fiskeldi. Andmælendur verða prófessor Anders Kiessling við Sænska Landbúnaðarháskólann og prófessor Þórarinn Sveinsson við Háskóla Íslands. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is