Doktorsvörn Nicolas Larranaga

Mánudaginn, 21. nóvember varði Nicolas Larranaga doktorsritgerð sína í líffræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og stóð sig með mikilli prýði.
 
Ritgerð hans ber titilinn „Dægursveiflur í virkni bleikju, Salvelinus alpinus: Tengsl við vistfræðilega þætti“, eða „Ecological correlates of diel activity in Arctic charr Salvelinus alpinus“. Nicolas vann verkefni sitt alfarið við Háskólann á Hólum undir leiðsögn Dr. Stefáns Óla Steingrímssonar, dósents við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans, og nýtti sér ýmsar ár og læki í Skagafirði við gagnasöfnunina.
 
Andmælendur við vörnina voru dr. Neil B. Metcalfe, prófessor við Háskólann í Glasgow, Skotlandi, og dr. Johan Höjesjö, dósent við Háskólann í Gautaborg, Svíþjóð.
 
Í doktorsnefnd voru auk Stefáns, dr. Sigurður S. Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, dr. James W.A. Grant, prófessor við Líffræðideild Concordia-háskólans í Montreal, Kanada og dr. Sveinn K. Valdimarsson, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun.
 
Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, Háskóla Íslands stýrði athöfninni.
 
Ágrip af doktorsritgerð:
 
Dægursveiflur í virkni lýsa því hvernig dýr deila sólarhringnum á milli virkni og hvíldar og hvernig þau keppa um auðlindir í tíma. Sumar tegundir sýna sveigjanleika í því hversu virk þau eru og hvenær og eru hentug til rannsókna á áhrifum vistfræðilegra þátta á virkni. Fiskar í ám, þá sérstaklega laxfiskar, eru skólabókardæmi um dýr sem sýna breytileika í virkni. Í doktorsverkefninu voru rannsakaðar dægursveiflur í virkni einstaklingsmerktra bleikjuseiða í tilraunum og rannsóknum við náttúrulegar aðstæður, þar sem athuguð voru áhrif þátta sem hafa mikilvæg áhrif á vistfræði laxfiska. Bleikjur voru virkari
(i) við hærra hitastig,
(ii) þar sem felustaðir voru takmarkaðir,
(iii) við meiri straumhraða,
(iv) þar sem vatnsrennsli var stöðugt, og
(v) við hærri þéttleika.
Í öllum rannsóknunum höfðu vistfræðilegir þættir líka áhrif á það hvernig virkni dreifðist í tíma. Sveigjanleiki í virkni tengdist líka breytileika í öðru atferli (t.d. árásarhneigð, fæðuháttum og búsvæðavali). Rannsóknirnar sýndu líka að stundum viðheldur bleikja vexti við óhagstæðar aðstæður (fáir felustaðir, hár þéttleiki) með því að breyta virkni sinni en stundum eru þær virkastar við aðstæður hagstæðar fyrir vöxt (meiri straumhraði). Í öllum tilraununum nema einni uxu virkari einstaklingar hraðar en þeir sem voru minna virkir. Þetta samband var þó háð aðstæðum og var t.d. greinilegra við meiri straumhraða og jafnara vatnsrennsli. Niðurstöður þessa verkefnis eru mikilvægar fyrir t.d.
(i) atferlisvistfræði (sveigjanleiki í atferli),
(ii) vistfræði laxfiska, vegna áhrifa virkni á fæðunám og vöxt við ólíkar aðstæður, og
(iii) verndun, vegna þess innsæis sem atferli veitir varðandi áhrif væntanlegra breytinga á búsvæðum fiska.
 
 
Fyrir vörnina frá vinstri: Stefán, Neil, Johan, Anna Dóra, Sveinn Kári og Sigurður
Fyrir vörnina, frá vinstri: Stefán, Neil, Nicolas, Johan, Anna Dóra, Sveinn Kári og Sigurður.
 
Nicolas stóð sig með mikilli prýði.
Nicolas stóð sig með mikilli prýði.
 
Stefán Óli Steingrímsson, 24. nóvember 2016.
 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is