Doktorsvörn Samantha | Háskólinn á Hólum

Doktorsvörn Samantha

Hinn 30. janúar sl. varði Samantha V. Beck doktorsritgerð sína í líffræði, við Háskóla Íslands. Samantha vann rannsóknir sínar fyrst og fremst undir leiðsögn dr. Camille Leblanc, dósents við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild. Aðrir í doktorsnefndinni voru dr. Zophonías O. Jónsson (frá Háskóla Íslands), Dr. Katja Räsänen (frá EWAG í Sviss), dr. John Postlethwait (frá Oregon State University) og þeir Bjarni K. Kristjánsson og Skúli Skúlason, prófessorar við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum.
 
Doktorsritgerðin ber titilinn „The Influence of Egg Size for the Diversification of Arctic Charr Morphs (Salvelinus Alpinus)“ og mun fljótlega verða aðgengileg í Skemmunni.
 
Ágrip ritgerðar:
Breytileiki á hrognastærð innan og milli tegunda fiska er umtalsverður og hrognastærð hefur áhrif á afkomu og hæfni afkvæma. Skilningur okkar á því hvaða áhrif eggjastærð getur haft á þroskunarferla afkvæma er aftur á móti takmarkaður. Bleikja (Salvelinus alpinus) er þekkt fyrir óvenjumikinn svipgerðarbreytileika og mismunandi afbrigði sem nýta ólík búsvæði og fæðu innan sama stöðuvatnsins eru algeng. Samantha athugaði hvort breytileiki í stærð hrogna og afkvæma hafi áhrif á þroskunarhraða og tjáningu gena tengdum vexti, beinþroskun og lögun þess hluta höfuðkúpunnar sem tengist fæðunámi. Þetta var metið í afkvæmum við klak og þegar þau hófu að éta. Slík tengsl hrognastærðar og fósturþroska voru rannsökuð hjá misaðgreindum afbrigðum í tveimur stöðuvötnum (Þingvallavatni og Vatnshlíðarvatni), sem og hjá sjóbleikjustofni (í Fljótaá). Genatjáning og þroskunarhraði voru ólík milli afbrigða, en hrognastærð hafði einungis áhrif í einu afbrigði. Þannig var tjáning gena, sem hafa áhrif á höfuðbeinþroskun, hlutfallslega há snemma á þroskaferlinu (augnstigi) og jafnframt tengd hrognastærð hjá afkvæmum silfraða afbrigðisins í Vatnshlíðarvatni, en afbrigðin í vatninu eru minna aðskilin er afbrigðin í Þingvallavatni. Samantekið styðja niðurstöður þá tilgátu að sveigjanleiki í þroska svipgerða, m.a. vegna áhrifa hrognastærðar, minnki eftir því sem samsvæða bleikjuafbrigð eru aðgreindari. Helsta nýnæmi ritgerðarinnar felst í því að sýna hvernig breytileiki í genatjáningu og snemmþroska svipgerða geti skýrt tilurð ólíkra afbrigða innan tegunda og að á fyrstu stigum slíkrar þróunar geti hrognastærð haft áhrif á sveigjanleika þessara þátta.
 
Andmælendur við vörnina voru þeir  dr. Kimmo Kahilanen, prófessor við Høgskolen i Innlandet í Noregi, og dr. Benedikt Hallgrímsson, prófessor við University of Calgary í Kanada. Báðir höfðu orð á þeirri miklu vinnu sem Samantha hefði lagt á sig við verkefnið, og að niðurstöður hennar væru afar gagnlegar fyrir viðkomandi fræðasvið. Athöfninni stýrði dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands. 
 
Af Samantha er annars það að segja að þann 1. apríl nk. mun hún hefja störf sem nýdoktor við The Rivers and Lochs Institute í Inverness í Skotlandi.
 
Myndina tók Camille Leblanc. Fleiri myndir ef skipt er yfir í ensku, hér á Hólavefnum.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is