Endurmenntunarnámskeið Knapamerkjanna | Háskólinn á Hólum

Endurmenntunarnámskeið Knapamerkjanna

Endurmenntunarnámskeið Knapamerkjanna var haldið laugardaginn 16.nóvember sl. Mjög góð þátttaka var á námskeiðinu en um 40 reiðkennarar mættu. Námskeiðið er nauðsynlegur þáttur í því að viðhalda prófdómararéttindum Knapamerkjanna. 
 
Þórdís Anna Gylfadóttir, nýr verkefnisstjóri Knapamerkjanna, var í lykilhlutverki á námskeiðinu. Mette Mannseth yfirreiðkennari við Háskólann á Hólum hélt fyrirlestur um kennslu og kennslufræði.  Einnig voru allmörg verkleg próf riðin fyrir þátttakendur sem æfðu sig í prófdæmingu. Ennfremur var tækifærið nýtt til að ræða um stöðu og framtíð Knapamerkjanna. 
 
Öll verkleg próf í Knapamerkjunum hafa nú verið uppfærð í samræmi við uppfærðar bækur. Prófin hafa tekið nokkrum breytingum og munu uppfærð próf taka gildi 1.janúar 2020. Allar upplýsingar um Knapamerkin er að finna á vefnum knapamerki.is og á Facebook-síðunni  „Knapamerkin“.
 
Gaman er að segja frá því að bækurnar fyrir 4. og 5.stig Knapamerkjanna hafa verið uppfærðar og eru komnar úr prentun. Nánar verður greint frá því á næstu dögum. 
 
Myndir Herdís Reynisdóttir.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is