Erasmus+ heimsóknir

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum hefur um árabil tekið þátt í kennara- og stúdentaskiptum innan menntaáætlunar ESB. Markmiðið er að auka hæfni og færni einstaklinganna sem taka þátt og þar með gæði og fjölbreytni háskólanáms. 
 
Undir hatti núgildandi áætlunar, Erasmus+, geta kennarar sótt um styrki til þess að sinna gestakennslu í erlendum háskólum og stúdentar geta sótt um styrki til skiptináms, hvort heldur sem er í bóklegt nám eða starfsnám. Þá geta kennarar og annað starfsfólk sótt um styrki til þess að efla samstarf milli háskóla, meðal annars í þróun námsframboðs og í rannsóknum. 
 
Á undanförnum vikum hafa tveir kennarar í  Ferðamáladeild nýtt sér þennan vettvang. Í janúar brá Laufey Haraldsdóttir sér á Erasmus+ tengslaráðstefnu í Zaragoza á Spáni. Slíkum tengslaráðstefnum er ætlað að efla tengsl fólks á öllum skólastigum og úr atvinnulífi, og jafnframt að finna samstarfsaðila í verkefni. Á ráðstefnunni í Zaragoza náði saman góður hópur fólks frá sex mismunandi löndum og vinnur hann nú að gerð sameiginlegrar umsóknar um styrk fyrir svokallað stefnumiðað samstarfsverkefni eða „Strategic partnership for higher education“. Ferðamáladeild Háskólans á Hólum sér um verkefnisstjórn, en samstarfsskólar eru San Antonio de Murcia háskólinn á Spáni, Graafschap starfsgreinaskólinn í Hollandi, Marco De Dominis Rab starfsgreinaskólinn í Króatíu, Spermalie hótelskólinn í Belgíu og Somonino hótelskólinn í Póllandi. Markmið Ferðamáladeildar með samstarfinu er að skoða möguleika í stúdentaskiptum, ekki síst í starfsnámi, sem og að skoða hugsanlegt rannsóknasamstarf. 
 
Í febrúar heimsóttir Áskell Heiðar Ásgeirsson  UK Centre for Events Mangement í Leeds Beckett háskólanum, en Háskólinn á Hólum hefur um nokkurra ára skeið átt í samstarfi við þann skóla og hefur það skilað sér í hvoru tveggja, nemenda- og kennaraskiptum.  
 
Við Háskólann á Hólum hefur um nokkurra ára skeið verið boðið upp á diplómunám í viðburðastjórnun og er það hið eina sinnar tegundar hérlendis. UK Centre for Events Mangement er ein stærsta miðstöð rannsókna og kennslu á sviði viðburðastjórnunar í Bretlandi og tilgangur ferðar Áskels Heiðars þangað var að efla tengslin við skólann, kynna nám við Háskólann á Hólum og fræðast um nám á sviði viðburðastjórnunar. Nú er komið að endurskoðun námsleiðarinnar hér og hefur Áskell Heiðar veg og vanda af því verkefni. 
  
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is