Aðstaða | Háskólinn á Hólum

Aðstaða

Hólastaður býður upp á einstaka aðstöðu til kennslu og rannsókna í tengslum við ferðamálafræði, sem fjölsóttur ferðamannastaður með margvíslegt aðdráttarafl. Á Hólum er fjölskylduvænt umhverfi og ótal tækifæri til þess að næra bæði líkama og sál.
 
Menning 
Hólar í Hjaltadal er einn af merkustu sögu- og helgistöðum þjóðarinnar. Á Hólum hefur verið stórbýli og skólastaður í 900 ár. Þar er byggingararfur þjóðarinnar sýnilegur, saga, trú og menning lifandi og nálæg. Á síðustu árum hefur verið unnið að fornleifauppgreftri á Hólum. Í Auðunarstofu hinni nýju eru varðveittar bækur sem prentaðar voru í Hólaprenti hinu forna. Í Hóladómkirku  eru reglulegir menningarviðburðir og helgihald. Sumarið 2010 opnaði Sögusetur íslenska hestsins glæsilega yfirlitssýningu um íslenska hestinn. Söfn og sýningar í Skagafirði gegna mikilvægu hlutverki sem aðdráttarafl fyrir ferðafólk og fjölmargir menningarviðburðir eru í boði allt árið um kring.
 
Náttúra
Náttúra svæðisins, sérstaklega skógurinn, er vettvangur kennslu í náttúrutengdri ferðaþjónustu, náttúruleiðsögn og gerð og viðhaldi göngustíga. Hólar eru vel staðsettir til kennslu og rannsókna í tengslum við margvíslega afþreyingu. Tröllaskaginn er mikið göngu- og útivistarsvæði og hestamennska á sér djúpar rætur í Skagafirði. 
 
Fagmennska
Náið samstarf við ferðaþjónustuaðila í héraði styrkir kennsluna, fjölbreytni verklegrar kennslu og eflir fagmennsku nemenda. Sem dæmi um samstarfsverkefni má nefna Matarkistuna Skagafjörð, en matvælaframleiðsla er umfangsmikil atvinnugrein á svæðinu og eru fyrirtækin bæði stór og smá. Önnur verkefni eru t.d. hestatengd ferðaþjónusta, Sturlungaslóð, skipulagningu gönguleiða á Tröllaskaga og fleira. 
 
Húsnæði - nærumhverfi
Aðstaða ferðamáladeildar er á fjórðu hæð aðalbyggingar Háskólans á Hólum. Þar eru skrifstofur deildarstjóra og kennara. Auk þess er þar vinnuaðstaða fyrir nemendur og fundar- og hópvinnuherbergi, sem og huggulegur setkrókur. Bókleg kennsla deildarinnar fer að mestu fram í aðalbyggingu skólans, einkum í kennslustofum á annarri hæð.
 
Í aðalbyggingu Háskólans á Hólum er bókasafn. Þar eru aðgengileg fagtímarit, um sérsvið skólans, auk þess sem bókasafnið er þátttakandi í verkefni um landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum. Á bókasafninu er lesaðstaða og aðstaða til hópvinnu. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is