Árangur | Háskólinn á Hólum

Árangur

 

Árangur

Kynbótaframfarir innan bleikjukynbótaverkefnisins hafa verið nálægt því sem búast mátti við út frá mati á arfgengi eiginleikanna sem valið hefur verið fyrir. Nýlegt mat gert af Þorvaldi Árnasyni prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, sýnir að kynbótaframfarir samsvara því að þyngd hafi aukist um 3-4% á ári. Þetta mat er byggt á niðurstöðum úr eldi bæði á Hólum og í útstöðvum. Til eru gögn um útstöðvahópa sem  hafa verið í eldi Silfurstjörnunni flest ár frá upphafi kynbótaverkefnisins. Vaxtarhraði þessara hópa, mældur sem TGC, hefur hækkað jafnt og þétt frá 1994 (mynd 1). Aðstæður í Silfurstjörnunni hafa að mestu verið hliðstæðar allan þennan tíma, eldishiti 8-10 °C og selta um 12‰. Yfirleitt fer útstöðvahópurinn í Silfurstjörnuna skömmu eftir áramót og er þá um 70g. Þyngd útstöðvarhópsins er síðan mæld um miðjan desember eftir að hafa verið níu mánuði í stöðinni. Miðað við framfarir í vaxtarhraða (mynd 2) má gera ráð fyrir að lokaþyngd fiska sem komu úr hrygningu árið 2008 hafi verið nærri helmingi meiri en lokaþyngd í upphafi kynbótanna. Auk kynbótanna má gera ráð fyrir að hluta þyngdaraukningarinnar megi rekja til betra atlætis og betra fóðurs. Til samanburðar er sýndur áætlaður vöxtur fiska á sama tímabili sem aldir væru við 6 °C (mynd 2).

Mynd 1. Vaxtarhraði (TGC) mismunandi árganga bleikju í Silfurstjörnunni.
Mynd 2. Áætluð meðalþyngd útstöðvahópa bleikjukynbótaverkefnisins í Silfurstjörnunni við 9 °C. Miðað er við að fiskarnir komi í stöðina 70g um miðjan febrúar og séu aldir í níu mánuði. Til samanburðar er sýnd áætluð þyngd fiska sem aldir væru jafn lengi við 6 °C.
Mynd 3. Áætluð aukning í vaxtarhraða (TGC) miðað við 3,5% þyngdaraukningu á ári.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is