Eldri rannsóknir | Háskólinn á Hólum

Eldri rannsóknir

 

Eldri rannsóknir

Deildin þarf að endurskoða texta

Best væri að tengja í skýrslur um viðkomandi verkefni, séu þær til á vefnum eða á pdf-sniði

 

Aquanet
Tímabil: 2006-2008
Aquanet og systurverkefni þess Fishnet eru verkefni er lúta að nemenda- og kennaraaskiptum innan Evrópu.
Styrktaraðilar: Leonardo áætlun Evrópusambandsins.

AquaTnet
Tímabil: 1996 -
Samstarfsverkefni háskólastofnanna sem sinna kennslu á sviði fiskeldis. Leitað er leiða til að efla samstarf um kennslu og samhæfa kennslu í fiskeldi í Evrópulöndum.
Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

Áhrif erfða og umhverfis á dvergvöxt og vöðvaþroskun bleikju
Tímabil: 2002-2011
Rannsókn þar sem sérstaklega var rannsökuð þroskun vöðva í bleikju af mismunandi afbrigðum við mismunandi hitastig. Einnig var í verkefninu rannsakað sérstaklega hvað hefur áhrif á vöxt bleikju. Framhaldsrannsókn um mikilvægi samkeppni og vistfræðilegra aðstæðna fyrir vöðvaþroskun bleikju mun hefjast haustið 2007. Rannsóknirnar eru unnar í samstarfi við háskólann í St. Andrews í Skotlandi.
Styrktaraðilar: Breski Vísindasjóðurinn (NERC).

Betri nýting vatns í bleikjueldi
Tímabil: 2006-
Vatnsþörf í fiskeldi er afar mikil og það sem endanlega takamarkar stærð og framleiðslugetu fiskeldisstöðva er aðgengi að heitu og köldu vatni. Markmið verkefnisins er að prófa ódýra og einfalda leið til þess að draga úr vatnsnotkun í bleikjueldi. Gert er ráð fyrir því að hægt sé að nýta vatn í bleikjueldi fjórfalt betur en nú er gert. Með því að nýta vatnið betur má auka framleiðslu fiskeldisstöðvanna án þess að aflað sé meira vatns. Annar kostur við betri nýtingu á eldisvatni er að víða dregur úr sveiflum í hitastigi og eldishiti hækkar, en hvort tveggja leiðir til betri vaxtar hjá fiskunum. Samstarfsaðilar eru Matís og Hólalax.
Styrktaraðilar: Tækniþróunarsjóður.

COST 867
Tímabil: 2005-
Háskólinn á Hólum er þátttakandi í verkefninu COST action 867 Welfare of Fish in European Aquaculture. Markmið verkefnisins er að leiða umræðu um velferð fiska í eldi. Áhugi neytenda á velferð húsdýra fer vaxandi og margar verslanakeðjur gera nú kröfur um aðbúnað dýra við framleiðslu á kjöti og fiski. Því er mikilvægt að fiskeldisframleiðendur geti mætt þessari umræðu með vísindalegum rökum. Í þessu verkefni er leitað að viðmiðum um velferð eldisfiska sem byggð eru á vísindalegri þekkingu. Síðan verða þessi viðmið nýtt við gerð gæðastaðla sem taka mið af velferð fiskanna í samráði við fiskeldisframleiðendur.
Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

FishACE
Tímabil: 2005-2008
Samstarfsverkefni innan Evrópu um áhrif veiða á genamengi stofna. Í verkefninu starfa fjölmargir doktorsnemendur og nýdoktorar. Rannsóknarhluti Háskólans á Hólum tengist bleikju.
Styrktaraðilar: Leonardo áætlun Evrópusambandsins.

Fjölbreytileiki dvergbleikju í samanburði við aðra bleikjustofna
Tímabil: 2004 -2008
Könnuð eru áhrif umhverfis á útlit, erfðafræði og vistfræði mismunandi dvergbleikjustofna ásamt því að rannsakað er mikilvægi mismunandi vistfræðilegra þátta á samhliða þróun.  Þannig fást upplýsingar um eðli breytileika hjá bleikju og mikilvægi vistfræðilegra þátta í þróun hans á mun nákvæmari skala en áður þekkist.
Styrktaraðilar: Brock doctoral sjóður háskólans í Guelph og Rannís.

Fjölbreytileiki hornsíla
Tímabil: 1998 -2008
Heildarmarkmið verkefnisins er að auka þekkingu á vistfræði og þróun íslenskra hornsíla. Rannsóknunum er ætlað að auka skilning á þeim vistfræðilegu þáttum sem valda þróun breytileika hornsíla og svara mikilvægum spurningum um myndun stofna og tegunda. Styrktaraðilar: Rannís, Lýðveldissjóður, Rannsóknarnámssjóður

Íslenskar grunnvatnsmarflær
Tímabil: 1998 -2007
Árið 1998 fundust  ferskvatnsmarflær í grunnvatni á Íslandi. Grunnvatnsmarflær þessar tilheyra áður óþekktum tegundum. Þessi fundur er einstakur í sinni röð því bæði er hér um að ræða nýjan hóp lífvera í íslensku ferskvatni og fyrsta fund á íslenskum grunnvatnslífverum. Meginmarkmið verkefnisins er að kanna vistfræði og útbreiðslu íslenskra grunnvatnsmarflóa. Um er að ræða mikilvægt innlegg í umræður vísindamanna um uppruna grunnvatnsfánu og um uppruna og fjölbreytileika íslensku fánunnar.
Styrktaraðilar: Rannís

Kynbætur á íslenskri eldisbleikju
Tímabil: 1992 -
Árið 1998 var undirritaður sérstakur samningur Háskólans á Hólum við landbúnaðarráðuneytið um kynbætur á bleikju. Með þessum samningi er kynbótaverkefninu tryggt rekstarfé og því sett stjórnunarleg umgjörð.
Kynbætur á eldisbleikju í samræmi við kynbótamarkmið og sala á kynbættum hrognum til innlendra eldisstöðva eru viðfangsefni verkefnisins. Samstarfsaðilar eru: Bleikjueldisstöðvarnar Silfurstjarnan hf, Íslandsbleikja ehf., Hólalax hf. og Háafell ehf. og kynbótanefnd verkefnisins. Árangur verkefnisins hefur verið kynntur á ráðstefnum og í tímaritinu Eldisfréttum.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður landbúnaðarins (1992-1997) og landbúnaðarráðuneytið (frá og með 1998).

Líf í lindum
Tímabil 2008 – 2010
Köld og heit lindasvæði eru algeng á Íslandi, sérstaklega innan eldvirka hluta landsins. Fyrir utan vatnshita þá eru þessar lindir ólíkar hvað varðar marga vistfræðilega þætti s.s. næringarefni, sýrustig og botngerð. Markmið þessa verkefnis er að kanna samspil vistfræðilegra þátta og samfélagsgerðar smádýra í lindum. Sérstaklega verður lögð áhersla á að athuga mikilvægi hita, pH, leiðni, viðtaka lindanna (straumvatn eða stöðuvatn) og afráns á smádýrasamfélögin. Verkefnið er unnið sem M.S. verkefni og mun samnýta gögn úr þremur rannsóknaverkefnum auk þess sem nýrra sýna verður aflað. Niðurstöður verkefnisins munu gefa okkur gleggri mynd af samfélögum linda og tengslum vistfræðilegra þátta við þau. Þær upplýsingar munu auka þekkingu okkar á eðli líffræðilegs fjölbreytileika og nýtast við ákvarðanatöku varðandi nýtingu og verndun lindabúsvæða.
Samstarfsaðilar: Veiðimálastofnun, Jón S. Ólafsson

Notkun á ódýrum próteinum í þorskafóðri
Tímabil: 2003 -
Í verkefninu er leitast við að draga úr fóðurkostnaði með því að nota ódýr prótein. Verkefnið er unnið í samstarfi við Fóðurverksmiðjuna Laxá og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. 
Styrktaraðilar: AVS sjóðurinn og Norræni Iðnaðarsjóðurinn.

Óðals- og fæðuatferli 0+ laxfiska í ám
Tímabil: 2005 -
Dýr sýna mikinn breytileika í því hvernig þau nota og verja sitt nánasta umhverfi. Þannig er algengt að dýr sitji og bíði eftir bráð sinni og verji lítil óðul, þar sem þéttleiki fæðu er mikill, eða leiti á virkan hátt eftir fæðu á stærri svæðum, þar sem lítið er af fæðu. Meginmarkmið verkefnisins er að lýsa óðals- og fæðuatferli þeirra þriggja tegunda laxfiska (lax, urriði, bleikja) sem finnast á Íslandi, á fyrsta sumri í lífi þeirra (á 0+ aldri), og að athuga hvernig þetta atferli er háð fæðuframboði. Í fyrri hluta verkefnisins verða gerðar stuttar athuganir (20 mín) til að lýsa fæðuatferli 90 fiska (30 af hverri tegund) í nokkrum ám og m.a. prófað hvort munur sé í fæðuháttum tegundanna og hvort einstaklingar séu líklegri til að sitja og bíða eftir fæðu þar sem meira er af fæðu á reki. Í seinni hluta verkefnisins verða gerðar lengri athuganir (1 klst) til þess að lýsa stærð, notkun, og vörn fæðuóðala hjá 45 fiskum (15 af hverri tegund) m.a. til þess að prófa hvort óðul séu misstór og misvel varin á milli tegunda og hvort þessir þættir séu háðir fæðuframboði. Óðals- og fæðuatferli laxa hefur mikilvægar afleiðingar fyrir einstaklinga og stofna. Stærð óðala og hversu vel þau eru varin veita upplýsingar um fjölda fyrsta árs laxa sem rúmast geta á ákveðnu svæði, á meðan lýsing á fæðuatferli og sveigjanleika þess gefur innsýn í það hvers vegna tegundir finnast á mismunandi búsvæðum og hvort fæðuatferli takmarki útbreiðslu þeirra.
Styrktaraðilar: Rannís.

Próteinþörf bleikju
Tímabil: 2007-
Markmið verkefnisins er að leita leiða til þess að lækka fóðurkostnað í bleikjueldi. Markmiðinu verður náð með því að rannsaka próteinþörf  (prótein úr hágæða loðnumjöli) fimm mismunandi stærðarflokka af bleikju. Rannsökuð verða áhrif mismunandi próteininnihalds (28-52%) á vaxtarhraða, fóðurnýtingu, meltanleika og heilbrigði fisksins svo og á efnasamsetningu og gæðaeiginleika fiskholds.
Samstarfsaðilar eru: Háskólinn á Hólum, Fóðurverksmiðjan Laxá hf. , Matís ohf., og Hólalax hf.
Styrktaraðilar: AVS sjóðurinn.

Samkeppnishæft lúðueldi í strandeldisstöðvum
Tímabil: 2005-2008
Markmið verkefnisins er að auka samkeppnishæfni lúðueldis á Íslandi. Það verður gert með því að þróa aðferðir til að auka framleiðni og draga úr framleiðslukostnaði með því að hámarka vöxt, þróa nýjar fóðurgerðir og bæta fóðurnýtingu.
Samstarfsaðilar eru: Akvaplan - niva,  Háskólinn á Hólum, Fóðurverksmiðjan Laxá hf., Fiskey ehf. og Ísaga ehf.
Styrktaraðilar: AVS sjóðurinn.

Skilgreining á kjöreldisaðstæðum á seiðastigi og í matfiskeldi á bleikju
Tímabil: 2007-2010
Markmið verkefnisins er að hámarka vöxt og fóðurnýtingu í bleikjueldi með því að skilgreina kjöreldisaðstæður við þauleldi og hámarka afrakstur úr eldi. Jafnframt er stefnt að því að auka samkeppnishæfni bleikjueldis á Íslandi. Það verður gert með því að þróa aðferðir með áherslu á hita, seltu og ljóslotu til að auka framleiðni og draga úr framleiðslukostnaði með því að hámarka vöxt og bæta fóðurnýtingu. Einnig verða skoðuð möguleg áhrif af hita- og ljóslotumeðferð á sláturgæði og virði bleikjunnar. Samstarfsaðilar: Akvaplan – niva, Samherji hf. og Matís ohf.
Styrktaraðilar: AVS sjóðurinn og Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

Yfirlitskönnun á lífríki íslenskra vatna: Samræmdur gagnagrunnur
Tímabil: 1992-
Langtímaverkefni sem miðar að því að rannsaka fjölbreytt lífríki íslenskra stöðuvatna og koma upplýsingum fyrir í gagnagrunni. Um 70 vötn hafa verið rannsökuð og upplýsingum um þau komið fyrir í gagnagrunninum. Aðilar frá Hólaskóla – Háskólanum á Hólum komu að mótun verkefnisins og hafa tekið virkan þátt í framkvæmd þess. Í skólanum hefur verið þróað vatnalífssýningu og unnið að námsefnisgerð í tengslum við niðurstöður verkefnisins auk fyrirlestra og annarra kynninga. Samstarfsaðilar voru: Háskóli Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Veiðimálastofnun.
Styrktaraðilar: Umhverfisráðuneytið, Rannís og Landvernd.

 

Aquaflow
Tímabil: 1996-2003
Verkefnið fólst í því að koma rannsóknarniðurstöðum á sviði fiskeldis á framfæri við fiskeldismenn og aðra sem áhuga hafa á fiskeldi. Útdrættir um rannsóknaverkefnin voru birtir á vefnum www.aquaflow.org .
Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

AquaTnet
Tímabil: 1996 -
Samstarfsverkefni háskólastofnanna sem sinna kennslu á sviði fiskeldis. Leitað er leiða til að efla samstarf um kennslu og samhæfa kennslu í fiskeldi í Evrópulöndum. Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

Átak til að efla bleikjueldi
Tímabil: 2003-2005
Í verkefninu voru rannsakaðir ýmsir þættir sem tengjast bleikjueldi og aukið geta framleiðni og hagræðingu í bleikjueldi. Verkefnið var unnið í samstarfi við Fiskiðjuna Skagfirðing og fleiri aðila.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

Breytileiki í fæðuatferli bleikjuseiða (Salvelinus alpinus) við upphaf fæðunáms
Tímabil: 2003-2007
Bleikjan er ferskvatnstegund sem sýnir mikinn breytileika í svipfari (útliti, atferli og lífssögu), en slíkur breytileiki getur leitt til afbrigða- eða tegundamyndunar. Afbrigðamyndun hjá bleikju er líkleg til að eiga sér stað í vötnum þar sem samkeppni við aðrar tegundir er lítil en mikil innan tegundarinnar, og þar sem bleikjan getur nýtt flestar þær auðlindir sem er að finna í vatninu. Rannsóknir hafa sýnt að bleikjuseiði beita mismunandi fæðuöflunaraðferðum til að bregðast við samkeppni um fæðu. Þessi breytileiki getur sést sem mismunur í hreyfanleika seiðanna við fæðunám, en fæðuatferli er talið endurspegla aðlögun bleikjunnar að þeim auðlindum sem er að finna í vatninu. Breytilegur sveigjanleiki í fæðuatferli innan og milli afbrigða er þar af leiðandi talinn hafa áhrif á þróun svipfars og vistfræðilega sérhæfingu afbrigðanna. Í þessari rannsókn var borinn saman  hreyfanleiki bleikjuseiða af mismunandi afbrigðum við fyrsta fæðunám. Einnig var kannað hvort stærð hefði áhrif á hreyfanleika seiðanna. Í rannsókninni voru notuð tvö afbrigði bleikju úr Þingvallavatni og eitt úr Vatnshlíðarvatni í A-Húnavatnssýslu.
Styrktaraðilar: Háskólinn á Hólum

Charrnet
Tímabil: 2002-2005
Samstarfsverkefni sjö Evrópulanda um að koma upp vef (www.charrnet.org) með upplýsingum um bleikju og bleikjueldi.
Styrktaraðilar:Evrópusambandið.

COST 827
Tímabil: 1996-2001
Háskólinn á Hólum tók þátt í verkefni sem nefndist COST Action 826. Um var að ræða samstarfs- og skoðanaskiptavettvang fyrir fyrirtæki og rannsóknastofnanir innan Evrópu um rannsóknir á ýmsu sem tengist fóðrun og næringarþörf fiska. Þáttakendur verkefnisins frá Háskólanum á Hólum sóttu fundi vegna samstarfsins auk þáttöku í öðrum verkefnum, t.d. var haldin á Íslandi lokaráðstefna verkefnisins í samstarfi Háskólans á Hólum, RALA og Háskóla Íslands.
Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

Eldi lúðu
Tímabil: 1997-1999
Háskólinn á Hólum vann með Fiskeldi Eyjafjarðar að verkefni sem fjallar um mikilvægi hormónastjórnunar á gæði fisklirfa í eldi. Þáttur Hólaskóla var að greina þroskunar- og útlitseinkenni snemma í þroskaferlinu, frá klaki og fram að því að seiðin hafa myndbreyst.
Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

Eldisbóndinn - Aquafarmer
Tímabil: 1996-1999
Samstarfsverkefni við Iðntæknistofnun  og írska og hollenska aðila um gerð námsefnis fyrir eldisbændur með bleikju og ál.
Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

EUREKA
Tímabil: 1998-2003
Háskólinn á Hólum, fiskeldisstöðin Máki, fiskeldisstöðin Silfurstjarnan, hugbúnaðarfyrirtækið Origo og Háskóli Íslands tóku þátt í fjölþjóðlegu verkefni sem hlotið hefur svonefnda Eureka viðurkenningu frá Evrópusambandinu. Einungis eitt annað íslenskt verkefni hefur hlotið slíka viðurkenningu.
Verkefnið tengist og styður við Mistral-Mar verkefnið um fiskeldi í lokuðum kerfum og er unnið í samstarfi við fyrirtæki og rannsóknastofnanir í Frakklandi. Viðfangsefnin eru fjölþætt, en tengjast öll á einn eða annan hátt eldi á bleikju og barra.
Styrktaraðilar: Rannís.

Fiskeldi í lokuðum kerfum – Mistral Mar
Tímabil: 2000-2003
Háskólinn á Hólum er, ásamt innlendum og erlendum fyrirtækjum og rannsóknastofnunum, í samstarfi við fiskeldisfyrirtækið Máka í Skagafirði, sem hefur unnið að tilraunaeldi á hlýsjávartegundinni barra í vatnsendurnýtingarkerfum. Fyrirtækið stefnir að því að auka framleiðslu sína og nýta til þess fiskeldisstöð Miklalax í Fljótum.
Í verkefninu var fiskurinn alinn í margfalt stærri fiskeldiskerjum en áður höfðu verið notuð í endurnýtingarkerfum. Til að hægt væri að nota kerin þurfti að fara í umfangsmiklar rannsóknir og þróunarvinnu. Þáttur Háskólans á Hólum í verkefninu fólst m.a. í því að kanna hvaða áhrif umhverfisþættir höfðu á vöxt, þrif og atferli barrans.
Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

Magnbundin erfðamörk í bleikju
Tímabil: 2003 - 2008
Leitað er að magnbundnum erfðamörkum (QTL) fyrir ýmsum mikilvægum lífssögulegum þáttum hjá bleikju. Um er að ræða samstarfsverkefni með Háskólanum í Guelph í Kanada.
Styrktaraðilar: Háskólinn í Guelph í Kanada (greiðir laun doktorsnemanda).

Mikilvægi trypsína í fóstrum og lirfum Atlantshafsþorsks (Gadus morhua).
Tímabil: 2004-2007
Meltingargeta lirfa sjávarfiska er háð magni og virkni meltingarensímsins trypsíns. Markmið verkefnisins er að skapa nýja þekkingu á breytileika í tjáningu, virkni og tegund trypsína í fóstrum og lirfum Atlantshafsþorsks (Gadus morhua). Auk þess að rannsaka hvort auka megi lifun þorsklirfa í eldi með fóðurþáttum, sem gætu örvað tjáningu og virkni trypsína. Breytileiki trypsína í fóstrum og lirfum þorsks verður rannsakaður en einnig verður rannsakað hvort auka megi lifun þorsklirfa í eldi með fóðurþáttum. Genatjáning þorskatrypsín afbrigða verður rannsökuð með magnbundinni RT-PCR greiningu og virkni þeirra mæld með gleypnimælingum. Trypsín afbrigði verða skilgreind nánar með SDS-PAGE- og tvívíðum rafdrætti, mótefnagreiningum og massagreiningum. Gildi verkefnisins felst í sköpun nýrrar þekkingar á tjáningu og virkni trypsína í fóstrum og lirfum þorsks ásamt upplýsingum um áhrif fóðurþátta á breytileika trypsína í þorsklirfum. Niðurstöðurnar munu væntanlega hafa hagnýtt gildi í fiskeldi þar sem nota mætti trypsín sem lífmerki (biomarker) við mat á lífvænleika lirfa og fóðurgæðum. Verkefnið unnið í samstarfi við Háskóla Íslands.
Styrktaraðilar:  Rannís, Rannsóknarnámssjóður Háskóla Íslands

Nýir eldisstofnar bleikju
Tímabil: 1998-2000
Verkefnið var samstarfsverkefni fiskeldismanna og rannsóknastofnana í Skotlandi, Þýskalandi, Austurríki og Íslandi. Þátttakendur frá Íslandi voru Stofnfiskur hf. og Háskólinn á Hólum. Markmið verkefnisins var að finna heppilega bleikjustofna til eldis í hverju landi fyrir sig. Á Íslandi var vöxtur bleikju af Mývatnsstofni borinn saman við vöxt þeirra bleikjustofna, sem þá var verið að kynbæta á Íslandi.
Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

Ódýrt fóður fyrir þorsk
Tímabil: 2004-2007
Markmið verkefnisins er að leita leiða til að lækka fóðurkostnað við eldi á þorski. Til þess á ná því markmiði verður rannsakað hvort og í hve miklum mæli unnt er að nota fitu sem próteinsparandi orkugjafa í þurrfóður fyrir þorsk. Áhrif sojapróteina verða jafnframt könnuð í hluta fóðurgerða (fóðri með 15, 20 og 30% fituinnihaldi). Fóðrið þarf að hafa rétt næringarinnihald fyrir eldisþorsk þannig að fiskurinn vaxi hratt, fóðurnýting sé ásættanleg, fiskurinn sé heilbrigður og að umhverfið hljóti sem minnstan skaða af. Eðliseiginleikar fóðursins (áferðareiginleikar eins og t.d. harka, vatnsbinding og stöðugleiki fóðurs í vatni) þurfa einnig að vera sambærilegir við hefðbundið fóður. Þorskeldisfóðrið þarf að framkalla mikinn vöxt án þess að valda fitusöfnun í lifur. Í tilrauninni verður virkni trypsíns einnig rannsökuð með tilliti til vaxtar og  kannað hvort unnt sé að mæla vöxt með mælingum á virkni trypsíns.
Samstarfsaðilar eru: Fóðurverksmiðjan Laxá hf., Matís ohf., Háskólinn á Hólum, Hafrannsóknastofnunin og Landbúnaðarháskóli Íslands.
Styrktaraðilar: AVS sjóðurinn.

Plöntuhráefni í bleikjufóðri í stað fiskimjöls og lýsis
Tímabil: 2005-2007
Markmið verkefnis er að framleiða ódýrt fóður fyrir bleikju svo lækka megi framleiðslukostnað og auka arðsemi í bleikjueldi. Verkefnið miðar að því að skipta út hráefni af sjávarfiskauppruna (fiskimjöli og lýsi) í eldisfóðri með hráefni af plöntuuppruna (mjöl og olíur), sem alla jafna er ódýrara. Leitast er við að finna heppileg hlutföll hráefnistegunda í fóðri fyrir bleikju og hvaða áhrif þau hafa á fiskinn. Samstarfsaðilar í verkefninu eru: Háskólinn á Hólum, Fóðurverksmiðjan Laxá hf., Matís ohf., Háskólinn á Akureyri og Hólalax hf.
Styrktaraðilar: AVS sjóðurinn.

Rannsókn á erfðastuðlum bleikju
Tímabil: 1990-1993
Í verkefninu voru metnir erfðastuðlar fyrir þyngd og kynþroskatíðni bleikju á mismunandi aldri og mismunandi kynjum. Jafnframt var þetta verkefni skipulagt sem undanfari frekari kynbóta á bleikju. Niðurstöður verkefnisins bentu til að arfgengi fyrir þessa eiginleika væri mjög hátt og því mjög vænlegt að kynbæta eldisbleikju. Samstarfsaðili var fiskeldisstöðin Hólalax hf. Niðurstöður hafa verið birtar á ráðunautafundum og í fyrirlestrum á innlendum og erlendum ráðstefnum.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

Samanburður á bleikjustofnum
Tímabil: 1989-1992
Í verkefninu voru bornir saman í eldi 15 bleikjustofnar með það að leiðarljósi að finna góða stofna til eldis í fiskeldistöðvum og kynbóta. Samstarfsaðilar voru Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Hólalax hf., Búnaðarfélag Íslands og Veiðimálastofnun. Eiginleikar sem mest voru skoðaðir voru hrognastærð, afföll, þyngd (vöxtur), aldur við kynþroska og roðlitur. Breytileiki reyndist mikill í mikilvægustu eldiseiginleikunum og eru þeir stofnar sem best komu út nú uppistaðan í þeim efnivið sem alinn er í eldisstöðvum víða um land. Þessir sömu stofnar voru einnig valdir til frekari kynbóta. Niðurstöður hafa verið kynntar á ráðunautafundum, í Fjölriti Rala og í fyrirlestrum á ráðstefnum.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Rannís.

Samband súrefnisupptöku og sporðsláttartíðni hjá barra (Dicentrarchus labrax)
Tímabil: 2001-2002
Þetta verkefni var hluti af stærra verkefni á vegum Evrópusambandsins sem kallast Mistral mar, en hlutverk þess var að kanna eldi á hlýsjávartegundum á norðlægum slóðum með endurnýtingarkerfum, þar á meðal á barra. Barri er hlýsjávartegund með útbreiðslu frá Miðjarðarhafi til Norðursjávar. Hann er mest alinn í Grikklandi og Tyrklandi en einnig mikið í Frakklandi.
Verkefnið var tvíþætt og fólst annars vegar í því að mæla súrefnisupptöku fisksins við mismunandi sundhraða og fá þannig út vísbendingu um orkunotkun og hins vegar að mæla sporðsláttartíðni á hverjum þessara sundhraða.
Styrktaraðilar: Evrópusambandið

Samanburður á tvílitna og þrílitna bleikju í eldi
Tímabil: 1991-1994
Í verkefninu voru bleikjuhrogn sett í hitalost til að gera þau þrílitna og fiskinn sem klektist úr þeim ófrjóan til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif kynþroska á holdgæði. Könnuð voru áhrif þessarar meðhöndlunar á þrif, vöxt og kynþroska. Niðurstöðurnar bentu til að aðferðin gæti verið hagnýt í stofnum þar sem snemmkynþroski væri mikill eða ef markaðurinn kallaði á svo stóran fisk að ala þyrfti hann á fjórða ár. Niðurstöður voru kynntar í fyrirlestrum og á veggspjöldum á ráðstefnum.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

Stoðrannsóknir við bleikjukynbætur
Tímabil: 1996-1999
Í verkefninu var metin arfgengi þyngdar, kynþroskatíðni, holdlits og fituhlutfalls bleikju. Einnig var gerð rannsókn á roðlitaerfðum. Í ljósi fenginna niðurstaðna og heimildarýni var kynbótaáætlun endurskoðuð. Samstarfsaðilar voru: Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Veiðimálastofnun, Stofnfiskur hf. og Búnaðarfélag Íslands. Niðurstöður hafa verið birtar í tímaritinu Eldisfréttum.
Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Rannís.

Strandeldisverkefnið
Tímabil: 1997-1998
Háskólinn á Hólum tók þátt í stóru rannsóknaverkefni, sem nefnist Strandeldisverkefni, þar sem leitað var leiða til þess að draga úr vatnsþörf fiskeldisstöðva. Þátttakendur voru fiskeldisstöðvar og rannsóknastofnanir. Hlutverk Háskólans á Hólum í þessu verkefni var að rannsaka vatnsþörf í bleikjueldi ásamt fiskeldisstöðinni Silfurstjörnunni hf. og Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands. Í verkefninu var sýnt fram á að draga má verulega úr vatnsnotkun í bleikjueldi og frekari tilraunir eru fyrirhugaðar. Niðurstöður verkefnisins hafa verið kynntar á innlendum og erlendum ráðstefnum og í blaðagreinum.
Styrktaraðilar: Rannís.

TERUPIN
Tímabil: 1998-2001
Háskólinn á Hólum tók þátt í verkefni sem nefnist TERUPIN. Um var að ræða samvinnu fimm Evrópulanda um þróun stoðumhverfis og aðstoð við nýsköpun í dreifbýli. Verkefnið miðaði að því að byggja upp skilvirkt nýsköpunarumhverfi með ráðgjöf og þróunarvinnu fyrir einstaklinga og fyrirtæki í þeirra eigin heimabyggð og stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja eða nýjunga hjá eldri fyrirtækjum. Aðilar frá Háskólanum á Hólum tóku þátt í fundum vegna samstarfsins auk þess að koma á tengslum milli sérfræðinga og fyrirtækja í þátttökulöndunum með það að markmiði að skiptast á þekkingu og koma á viðskiptatengslum.
Styrktaraðilar: Evrópusambandið.

Verndunarstefna fyrir bleikju
Tímabil: 2003-2004
Samnorrænt verkefni með það að markmiði að móta verndunarstefnu fyrir bleikju. Styrktaraðilar: Norræni sjóðurinn.

Þróun aðferða til að stjórna vexti og kynþroska hjá bleikju
Tímabil: 1992-1996
Umfangsmikið verkefni þar sem rannsakaðir voru margvíslegir þættir sem hafa áhrif á vöxt og kynþroska bleikju með það að markmiði að auka og jafna vöxt og fyrirbyggja ótímabæran kynþroska. Samstarfsaðilar voru: Háskóli Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Veiðimálastofnun, Hólalax hf. og Lækur hf. Mörg rannsóknaverkefni háskólanema voru tengd þessu verkefni. Niðurstöður hafa verið birtar víða. Styrktaraðilar: Framleiðnisjóður landbúnaðarins og Rannís.

Þróun sjálfbærs bleikjueldis – Aquacharr
Tímabil: 1996-2000
Verkefnið var víðfeðmt og tók á ýmsum þáttum, sem tengjast eldi og kynbótum á bleikju. Samstarfsaðilar voru frá háskólum í Skotlandi, Svíþjóð og Írlandi auk Háskóla Íslands og fiskeldisfyrirtækisins Hólalax. Einnig komu RALA og Stofnfiskur hf. að ákveðnum verkhlutum. Í verkefninu voru þróaðar erfðafræðilegar aðferðir til þess að greina í sundur villta bleikjustofna. Þessum aðferðum var m.a. beitt til þess að bera saman bleikjustofna á Íslandi og hafa niðurstöðurnar varpað nýju ljósi á þróun og tegundamyndun fiska. Einnig var upplýsinga aflað um vöxt bleikju við mismunandi umhverfisaðstæður og erfðastjórnun á vexti bleikju. Niðurstöðurnar eru mikilvægur grundvöllur fyrir mótun kynbótastefnu á bleikju. Niðurstöður hafa verið kynntar á innlendum og erlendum ráðstefnum og í tímaritsgreinum.
Styrktaraðilar:Evrópusambandið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is