Framkvæmd | Háskólinn á Hólum

Framkvæmd

 

Framkvæmd

Við bleikjukynbæturnar er beitt hliðstæðum aðferðum og notaðar hafa verið við kynbætur á laxi í Noregi. Hrogn úr hverri hrygnu eru frjóvguð með svilum úr einum hæng, en hver hængur frjóvgar tvær til þrjár hrygnur. Þannig eru myndaðir hópar alsystkina og hálfsystkina. Val á hængum til undaneldis er strangara en val á hrygnum þar sem hver hængur er gjarnan látinn frjóvga hrogn tveggja til þriggja hrygna. Þetta fyrirkomulag eykur hraða kynbótaframfaranna miðað við að einungis einn hængur væri notaður á móti hverri hrygnu.
 
Á grundvelli kynbótaeinkunnar, þar sem þyngd og kynþroski hafa jafnt vægi, og úrvalsskilyrða um gallalaust útlit eru árlega valdar um 170 hrygnur og 60-70 hængar úr um 5000 fiska hópi. Völdu fiskarnir eru notaðir til undaneldis fyrir næstu kynslóð. Undan þeim koma 170 systkinahópar sem eru aldir í sér kerjum í eitt ár frá frjóvgun. Þá fær hver fiskur merki síns systkinahóps (frostmerki og uggaklipping). Að merkingu lokinni er úrtak úr hverjum systkinahópi alið á tveimur prófunarstöðvum og í kynbótastöðinni. Við tveggja ára aldur eru allir fiskarnir vegnir, lengdarmældir, kynþroski skráður ásamt athugasemdum ef gallar eru sjáanlegir. Þessi mæling er grundvöllur kynbótaeinkunnar sem byggist á einstaklingnum sjálfum og skyldum einstaklingum (aðallega systkinum og hálfsystkinum).Til að aukning skyldleikaræktar verði ekki of mikil eru foreldrar hverrar kynslóðar valdir úr a.m.k. 30 systkinahópum. Kynslóðabilið er 3-4 ár.
Árið eftir að hrygnurnar hafa verið notaðar til undaneldis í kynbótaverkefninu eru þær notaðar til framleiðslu söluhrogna, þ.e. við 4 ára aldur og aftur við 5 og 6 ára aldur. Hængarnir sem eru notaðir á söluhrogn eru valdir mun strangar en hængar sem notaðir eru í kynbótaverkefnið vegna þess að einn hængur dugar til að frjóvga hrogn margra hrygna.
Í Sigtúni í Öxarfirði er öryggisstöð fyrir kynbótaefniviðinn til að lágmarka skaða ef eitthvað færi úrskeiðis í kynbótastöðinni á Hólum.
 

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is