Stofnar | Háskólinn á Hólum

Stofnar

 

Stofnar

Á grundvelli niðurstaðna úr stofnasamanburði og mati á arfgengi hófust kynbætur á bleikju á Hólum í Hjaltadal haustið 1992. Efniviðurinn í kynbæturnar var fengin úr þeim stofnum sem reynst höfðu best. Æxlað var saman og innbyrðis fiskum úr eftirtöldum vötnum og ám sem mynduðu þannig kynbótastofninn sem að mestu var byggður upp á fyrstu þremur árum verkefnisins: Ölvesvatn, Grenlækur, Laxárvatn, Litlaá, Hólastofn, Víðidalsá, Miðfjarðará, Hrútafjarðará. Stofnunum er hér raða upp eftir því hver hlutdeild þeirra var í kynbótastofninum í upphafi. Tveir fyrst töldu stofnarnir sýndu yfirburði í samanburði á vexti og síðbúnum kynþroska. Reyndar var tekið inn nokkuð af utanaðkomandi efni í stofninn allt til ársins 2003. Aðallega var um að ræða sömu stofna og áður höfðu verið teknir inn, en auk þess var bætt við fáeinum fiskum úr Mývatni, Frostastaðavatni og frá Nauteyri.
Frá og með haustinu 1994 var klakfiskunum skipt í tvær línur eftir roðlit, dökku línu og ljósu línu. Grenlækjarstofninn er fyrirferðamestur í dökku línunni og Ölvesvatnsstofninn í ljósu línunni. Þannig eru í raun tveir kynbótastofnar í verkefninu. Þetta kom til vegna óska framleiðenda um mismunandi roðlit sem markaðir kölluðu eftir. Á síðustu árum hafa áherslur á roðlit minnkað og hrogn sem seld eru til bleikjueldisstöðva í flestum tilfellum blendingar dökku og ljósu línunnar. Ef einhver blendingsþróttur* er fyrir hendi þá skilar hann sér með þessu fyrirkomulagi.
 
_________
* Blendingsþróttur: Betri vöxtur, frjósemi eða  lifun blendinga tveggja stofna heldur en fæst hjá foreldrum hvors stofns fyrir sig.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is