Vaxtarmælingar | Háskólinn á Hólum

Vaxtarmælingar

 

Vaxtarmælingar

Hér er vaxtarhraði sýndur sem vaxtarstuðull (thermal growth coeffcient, TGC). Kosturinn við að mæla vöxt með TGC stuðlinum felst einkum í því að hann er ekki háður hitastigi og stærð fiskanna eins og dagvöxtur (specific growth rate). Aftast í þessum kafla eru sýnd dæmi um það hvernig TGC stuðullinn er reiknaður í Excel, en hann er reiknaður sem hér segir:

þ1 og þ2 eru upphafs- og lokaþyngd, t er meðalhiti á vaxtartímabilinu og d er fjöldi daga á vaxtartímabilinu.
Þessi mæling byggist á þeim forsendum að þyngd vaxi í hlutfalli við lengd í þriðja veldi, að lengdarvöxtur sé línulegur og vaxtarhraði aukist í beinu hlutfalli við hitastig. Reyndir eldismenn átta sig strax á því að þessar forsendur standast ekki fyllilega. Í fyrsta lagi þá er þyngd ekki í raun alveg í beinu hlutfalli við lengd í þriðja veldi. Ef svo væri, þá myndi holdastuðull ekki aukast eins og hann gerir yfirleitt samhliða því að fiskarnir vaxa. Einnig eykst vaxtarhraði með auknu hitastigi bara upp að kjörhitastigi vaxtar. Það breytir því ekki að þessar forsendur virðast standast nægilega vel til þess að líkanið virðist virka nokkuð vel við hitastig sem er undir kjörhitastigi (12-14 °C) og þrátt fyrir að holdastuðull bleikju sé ekki stöðugur á vaxtartíma. Hingað til hefur vöxtur bleikju við mismunandi hitastig oftast verið áætlaður með vaxtarlíkani frá Malcolm Jobling. Á mynd 1 var vaxtarlíkan Joblings notað til þess að áætla TGC bleikju af mismunandi stærð og aldri við mismunandi hita. Eins og sjá má, er lítill munur á TGC fiska af mismunandi stærð sem aldir eru við mismunandi hitastig og er TGC skv. líkaninu milli 1,6 og 1,8.
Vöxtur kynbættrar bleikju af  kynslóðinni sem kom úr hrygningu 2008 er um 2,6 (mynd 1). Áætlaður vöxtur kynslóðar úr hrygningu 2010 sem alin er í kynbótastöðinni á Hólum er 2,8-2,9. Þessi vöxtur er heldur betri en vöxtur fiska í flestum eldisstöðvum hér á landi sem er á bilinu frá 1,7-2,7, en meðaltalið er sennilega heldur hærra en 2. Til samanburðar má nefna að vöxtur bleikju í kanadískum og sænskum eldisstöðvum er heldur slakari. Meðalvöxtur á laxi í Noregi, Chile og Skotlandi er 2,2-2,5 þó svo að við bestu aðstæður geti vöxturinn farið upp fyrir 3.
Vaxtarhraðinn sem sýndur er á mynd 1 getur verið n.k. viðmið fyrir bleikjuframleiðendur til þess að meta vöxt í eldisstöðvum sínum. Í flestum stöðvum ætti að vera mögulegt að ná sama TGC (2,6-2,8) og á fiski sem alinn er í kynbótastöðinni á Hólum óháð hitastigi. Áætlað TGC í nokkrum íslenskum stöðvum gefur þó til kynna nokkru lakari vöxt. Þessar tölur sýna að hægt er að auka vaxtarhraða bleikju í sumum íslenskum eldisstöðvum með bættum eldisaðferðum.
 
Mynd 1. Vaxtarstuðull bleikju áætlaður með líkani Joblings við mismunandi hitastig. Einnig er sýndur TGC fyrir fiska í kynbótastöðinni á Hólum og áætlaðan vaxtarhraða fiska í nokkrum íslenskum eldisstöðvum.
Hér að neðan eru sýnd dæmi um það hvernig TGC er reiknað og einnig hvernig meta megi  áætlaða stærð fiska að tilteknum tíma liðnum með útreikningum byggðum á TGC.
Dæmi 1. Hversu hátt er TGC í eldisstöð þar sem upphafsþungi fiska er 10g og lokaþungi eftir 12 mánaða eldi er 800. Eldishiti var 8 °C.
Dæmi 2. Hversu hátt er TGC í eldisstöð er 2,5, upphafsþyngd fiska er 20g 30. nóvember og meðaleldishiti er 7 °C. Hvað má gera ráð fyrir að þyngd fiskanna verði 31. mars?
Hér er sýnt hvernig setja má upp jöfnurnar sem notaðar voru við útreikninga í Excel:
Grænu reitirnir sýna hvernig gögnin voru slegin inn. Sláið inn upphafs- og lokaþyngd í grömmum. Notið sama snið og sýnt er hér að ofan (í grænu reitunum) á dagsetningar. Það er allt í lagi þó excel breyti því sjálfkrafa í t.d. 1/09/2010 eins og sést í gula reitnum. Bleiku reitirnir sýna formúlurnar og gulu reitirnir sýna niðurstöðuna úr formúlunum.
 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is