Fjölbreytt viðfangsefni í staðarlotum Ferðamáladeildar | Háskólinn á Hólum

Fjölbreytt viðfangsefni í staðarlotum Ferðamáladeildar

Lífið í staðarlotum er fræðandi og skemmtilegt bæði fyrir nemendur og kennara. Í þeim hittast nemendur, ræða saman í verkefnavinnu, tengjast böndum og mynda tengslanet.
 
Undanfarnar tvær vikur daga hafa staðið yfir staðarlotur há 1. og 2. árs nemum í Ferðamáladeild, m.a. í námskeiðunum Menning og ferðamál og Stjórnun. Staðarlotur einkennast gjarna af virkri þátttöku nemenda í bland við kynningar hvers konar.
 
Menningarstofnanir Hólastaðar, ábyrg ferðaþjónusta og heimsókn í ferðaþjónustufyrirtæki, þ.e. Hótel Varmahlíð, voru meðal viðfangsefna að þessu sinni. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup tók á móti nemendum í Hóladómkirkju undir orgelleik Gylfa Jónssonar og fræddi nemendur um sögu Hóladómkirkju, Gylfi Jónsson upplýsti hópinn um Auðunarstofu, Kristinn Hugason tók á móti hópnum í Sögusetri íslenska hestsins og Broddi Reyr Hansen í Bjórsetri Íslands en þar fengu þau einnig innsýn í bjórgerð. Menningarstofnanirnar eru ólíkar en markmiðið með heimsóknunum er að nemendur upplifi í anda upplifunarhagkerfisins (e. experience economy) hvernig menningu er miðlað af staðkunnugum. 
 
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans kynnti hlutverk og starfsemi klasans sem og hvatningarátaksins Ábyrgrar ferðaþjónustu. Jónas Guðmundsson starfsmaður Landsbjargar leiddi nemendur í allan sannleika um gildi öryggisáætlana í ábyrgri ferðaþjónustu og setti fram trúverðuga lausn að því markmiði að lágmarka slys og óhöpp hvers konar í ferðaþjónustu.
 
Í fyrirlestraröðinni Vísindum og graut veitti Kjartan Bollason lektor áheyrendum innsýn í hönnun upplifunar í útivist. Umræður voru á stundum allfjörugar og nemendur fóru heim með mörg álitamál, spurningar og svör er varða ferðamál og ferðaþjónustu.  
 
Anna Vilborg Einarsdóttir
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is