Fullbright-sérfræðingur við Ferðamáladeild

Um þessar mundir dvelur á Hólum Dr. Kathleen Andereck, prófessor við fylkisháskólann í Arizona (Arizona State University). Hún er í forsvari fyrir námsskrárgerð við the College of Public Service & Community Solutions og forstöðumaður School of Community Resources and Development innan háskólans.
 
Kathleen, eða Kathy eins og hún er kölluð, dvelur hér á Fulbright-styrk sem sérfræðingur í þróun námsskrár og námsefnis á háskólastigi. Sérsvið hennar er þróun og stjórnun náttúruauðlinda, samfélagsþróun og ferðaþjónusta. Hún hefur lagt stund á rannsóknir á upplifun ferðamanna, viðhorfum íbúa áfangastaða til ferðaþjónustu, sjálfbærri ferðaþjónustu, samfélagsmiðaðri ferðaþjónustu, ferðaþjónustu og lífsgæðum og sjálfboðavinnu í ferðaþjónustu. 
 
Kathy hefur á undanförnum vikum unnið með kennurum Ferðamáladeildar að endurskoðun á meistaranámi deildarinnar. Þá hefur hún skoðað með starfsfólki deildarinnar möguleika varðandi námsdvöl nemenda frá háskólanum í Arizona hérlendis og námskeiðahald á Hólum í tengslum við það. Kathy hefur í fylgd með starfsfólki Ferðamáladeildar heimsótt Rannsóknarsetur Háskóla Íslands og Hvalasafnið á Húsavík, Rannsóknamiðstöð ferðamála á Akureyri og Háskólann á Akureyri, Selasetur Íslands á Hvammstanga og Refasetrið á Súðavík. 
 
Við þökkum Kathy kærlega fyrir hennar framlag til þróunar náms og nýsköpunar innan Ferðamáladeildar og vonumst til að eiga gott samstarf við hana og fylkisháskólann í Arizona í framtíðinni.
 
Laufey Haraldsdóttir
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is