Fundað um fiskeldismál | Háskólinn á Hólum

Fundað um fiskeldismál

Síðastliðinn þriðjudag stóð Austurbrú fyrir fundi um fiskeldismál og var hann haldinn á Djúpavogi. Á fundinum voru haldnir átta fyrirlestrar;  um stöðuna í fiskeldi, leyfisveitingar og áætlanir tveggja fyrirtækja um fiskeldi á Austurlandi.

Það er gaman að segja frá því að þrjú af þeim sem héldu fyrirlestra eru fyrrum og núverandi nemendur Háskólans á Hólum: Soffía Karen Magnúsdóttir, fagsviðssjóri fiskeldis hjá MAST, fjallaði um reglugerðir og framkvæmd. Hún brautskráðist með diplómu í fiskeldisfræði frá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild árið 2011, og lauk síðan BS-námi í sjávar-og vatnalíffræði (sameiginlegri námsleið Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands) árið 2014.

Valgeir Ægir Ingólfsson, sem starfar hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, hélt fyrirlestur um reynslu af sjókvíaeldi á Vestfjörðum. Valgeir lauk BA-prófi frá  Ferðamáladeild árið 2007 en leggur nú stund á diplómunám í fiskeldisfræði við  Fiskeldis- og fiskalíffræðideildina.

Erindi Guðbjargar Stellu Árnadóttur, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, snerist um starfsleyfi í fiskeldi. Guðbjörg Stella lauk námi frá Háskólanum á Akureyri, en BS og MS rannsóknaverkefni sín vann hún bæði í aðstöðu Háskólans á Hólum í Verinu.

Þetta má telja til marks um að nám við Háskólann á Hólum sé góður undirbúningur fyrir margvísleg störf í fiskeldi og tengdum greinum.

Fundur um fiskeldismál, haldinn á Djúpavogi
Frá vinstri: Gauti Jóhannesson sveitarstjóri, Guðmundur Gíslason Fiskeldi Austfjarða, Guðbjörg Stella Árnadóttir, Soffía Karen Magnúsdóttir, Sigmar Arnar Steingrímsson sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun, Höskuldu Steinarsson Landssambandi fiskeldisstöðva, Valgeir Ægir Ingólfsson, Sólveig Rósa Ólafsdóttir sérfræðingur frá Hafrannsóknastofnun, Gunnar Steinn Gunnarsson fiskeldisfyrirtækinu Laxar.
 
Soffía Karen, Guðbjörg Stella og Valgeir Ægir
Soffía Karen Magnúsdóttir, Guðbjörg Stella Árnadóttir og Valgeir Ægir Ingólfsson.
 
20. október 2016, Helgi Thorarensen.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is