Fyrirlestraraðir vetrarins hafnar | Háskólinn á Hólum

Fyrirlestraraðir vetrarins hafnar

Eins og undanfarin ár gengst Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum fyrir röð opinna fyrirlestra, undir yfirheitinu Föstudagsfyrirlestrar í Verinu. Fyrirlestrarnir hefjast að öðru jöfnu kl. 9 á föstudagsmorgnum, og lýkur með óformlegu spjalli í morgunkaffi með starfsmönnum og nemendum í Verinu. 

Fyrirlestrarnir eru kynntir fyrirfram, á Hólavefnum og á Facebook-síðu skólans.Viðfangsefnin eru af ýmsum toga,  gjarna byggð á líffræðilegum grunni eða á annan hátt tengd starfsemi Versins.

Fyrsti föstudagsfyrirlestur þessa árs verður á morgun, föstudaginn 21. september, og það er dr. Bjarni K. Kristjánsson, prófessor og deildarstjóri, sem ríður á vaðið. Erindi sitt nefnir hann Intraspecific biodiversity - an under appreciated part of freshwater ecosystems.“

Næsti föstudagsfyrirlestur verður svo væntanlega kynntur eftir helgina.

Nú fyrr í vikunni var fyrsti opni fyrirlestur skólaársins hjá Ferðamáladeild. Deildin gengst að jafnaði fyrir einum slíkum fyrirlestri í mánuði yfir vetrartímann og kallast röðin Vísindi og  grautur. Fremur en að binda þá við fastan dag í mánuðinum, er reynt að koma þeim þannig fyrir að sem flestir af fjarnemum deildarinnar séu þá í staðbundinni lotu heima á Hólum og njóti góðs af.

Áðurnefndur fyrirlestur nefndist Tourism and Culture heritage og í honum fjallaði dr Per Åke Nilsson um þetta viðfangsefni frá ýmsum sjónarhornum, svo sem. hvernig menningararfleifð er notuð í pólitískum tilgangi og hvernig ferðaþjónusta þróast í kringum menningararfleifð. Per Åke er Hólamönnum að góðu kunnur, en hann kenndi við Ferðamáladeildina um tíma fyrir nokkrum árum, samhliða störfum sínum við Selasetur Íslands á Hvammstanga.

Næsti fyrirlestur í Vísindum og graut er fyrirhugaður 3. október kl. 13 og þá mun Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi ráðherra og þjóðfræðingur, segja frá biskupsdætrum á Hólum.

Fyrirlestrarnir eru opnir og allir velkomnir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is