Fyrirlestur Þorvaldar Árnasonar um skeið og þjálfun þess

Prófessor Þorvaldur Árnason heimsótti Háskólann á Hólum dagana 24.-26. október. Hann fylgdist meðal annars með skeiðkennslu á 3.árinu og fékk leiðsögn um aðstöðu Hestafræðideildar, auk þess að hitta starfsmenn og nemendur til að spjalla við þá. Þorvaldur er Hólamönnum að góðu kunnur en hann var búsettur á Hólum 1981-83 og kenndi þá hrossarækt við Bændaskólann sem þá var. Þorvaldur er faðir Blup-kynbótamatskerfisins í íslenskri hrossarækt og afburða skeiðreiðarknapi, en hann komst meðal annars á verðlaunapall í 250 m skeiði á heimsmeistarmóti íslenska hestsins í Hollandi í sumar.
 
Þorvaldur hélt afar fræðandi og skemmtilegan fyrirlestur um skeið og þjálfun þess fyrir fullum sal af hestamönnum á Hólum. Miklar og líflegar umræður sköpuðust, og er líklegt að nú verði riðið skeið sem aldrei fyrr því Þorvaldur sagði að það þyrfti að æfa a.m.k 10 þúsund spretti til að verða góður í að ríða skeið! 
 
Við þökkum Þorvaldi kærlega fyrir frábæran fyrirlestur og heimsóknina.
 
26. október 2017. Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir. Myndir: Rafnkell Jónsson.
 
Gestir á fyrirlestri Þorvaldar Árnasonar
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is