Gestakennari á cyberformi | Háskólinn á Hólum

Gestakennari á cyberformi

Ný þekking er grundvallaratriði í háskólastarfsinu.  Ýmsar leiðir eru til að afla sér kunnáttu og færni,  og víkka sjóndeildarhringinn.
 
Um árabil hefur Hestafræðideild Háskólans á Hólum fengið til sín a.m.k. einn gestakennara á hverju ári. Þá er leitað til  einstaklings  sem skarar fram úr sem fagmaður á sviði hestamennskunnar og býr einnig yfir færni í að miðla sinni þekkingu til annarra.  Heimsóknin nýtist þannig hvort sem er frá sjónarhóli reiðmennskunnar eða kennslufræðinnar, og er ætluð kennurum jafnt sem  nemendum deildarinnar.
 
Í vetur reyndist okkur óvenjuerfitt að koma gestakennslunni á,  fyrst vegna  ítrekaðrar ófærðar í marga mánuði og síðan  Covid19 sem tók fyrir ferðalög og samkomur.
 
Okkur tókst engu að síður að finna leið. Gestakennarinn okkar þetta árið var margfaldur heimsmeistari, Julie Christiansen.  Leiðin lá gegnum þrjá mjög vandaða fyrirlestra á netinu, ásamt spjalli við Julie þar sem hún svaraði spurningum nemenda og reiðkennara, og þær (spurningarnar) voru ansi margar.
 
Mikil ánægja var með þessa „heimsókn.“  Nú hefur skólinn verið opnaður á ný og nemendur á 1. og 3. ári í Hestafræðideild eru komnir aftur heim að Hólum. Óhætt er að segja að nemendur og kennarar  leggi  upp í lokatörnina, fullir metnaðar og nýrra hugmynda.
 
Mette Mannseth
 
 
Julie Christiansen
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is