Gestir frá New Brunswick háskólanum í Saint John

Undanfarna mánuði hafa hjónin dr. Keith Dewar og Wanmei Li dvalið við Háskólann á Hólum og stundað hér rannsóknir. Aðdragandi dvalarinnar er að 2013 komu þau á alþjóðlegu ráðstefnuna North Atlantic Forum sem Ferðamáladeild skólans stóð fyrir á Hólum. Skemmst er frá að segja að þau féllu fyrir staðnum. Þegar svo Keith fékk rannsóknarleyfi frá New Brunswick háskólanum á austurströnd Kanada, þar sem þau hjón starfa, voru þau ekki lengi að ákveða hvert þau færu.
 
Hjónin starfa bæði á sviði gestamótttöku og ferðaþjónustu við viðskiptafræðideild New Brunswick háskólans í Saint John. Keith hefur bakgrunn í umhverfis- og landfræði, en Wanmei í byggingarverkfræði og deiliskipulagi, auk þess sem hún hefur meistaragráðu í ferðamálafræðum. Þau hafa bæði stundað fjölbreyttar rannsóknir í Kanada, Kína og víðar. Má þar nefna rannsóknir tengdar sjálfbærni og stjórnun menningararfs, náttúruauðlinda og þjóðgarða, ferðaþjónustu í dreifbýli, stefnumótun í ferðaþjónustu, sjónrænu læsi og ímyndargreiningu (e. visual literacy and image analyses studies), borgarskipulagi og ferðamálum í Kína.
 
Þau Keith og Wanmei hafa dvalið á Hólum síðan í lok júlí og tekið virkan þátt í daglegu lífi á staðnum. Rannsóknir þeirra beinast að Hólum sem áfangastað ferðamanna, viðhorfi ferðamanna sem hingað sækja og aðstæðum tengdum rekstri ferðaþjónustu á staðnum. Þau hafa tekið þátt í kennslu í Ferðamáladeild, haldið opinn fyrirlestur í fyrirlestraröðinni Vísindum og graut, og þá hefur Keith tekið að sér vörslu og leiðsögn um Hóladómkirkju hluta úr sumri, í sjálfboðavinnu.
 
14. október 2016, Laufey Haraldsdóttir.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is