Inntökupróf

 

Inntökupróf í nám í reiðmennsku og reiðkennslu

Umsækjandi þarf að geta sýnt reiðmennsku í samspili við hestinn á fjórum gangtegundum (ekki á skeiði). Í prófinu er verið að meta grunnatriði í reiðmennsku s.s. jafnvægi, ásetu, taumhald, samhæfingu ábendinga, skilning, tímasetningu, tilfinningu fyrir gangtegundum og stjórnun hestsins.

Prófið fer fram á skólahestum og er umsækjanda leiðbeint í gegnum það stig af stigi. Í prófinu eru eftirfarandi atriði:

 

- Lagt við og á hestinn
- Hesturinn teymdur við hlið á feti og brokki
- Farið á og af baki, með og án ístaða
- Riðnar allar gangtegundir nema skeið á mismunandi reiðleiðum, m.a. baugum og slöngulínum

- Sýna lóðrétta, hálflétta og stígandi ásetu
- Ríða fet, brokk og tölt án ístaða
- Krossgangur á feti á skálínu
- Hraðabreytingar á tölti
- Stökk á hringnum
- Umsækjandi þarf að vera í viðunandi líkamsformi (120 metra hlaup á tíma).
 

Inntökupróf vegna náms í reiðmennsku og reiðkennslu fara fram heima á Hólum í lok maí og/eða fyrri hluta júní ár hvert (oftast eru síðustu prófdagar í viku 23 eða 24, þ.e. sem fyrst eftir að umsóknarfrestur rennur út).

 

Inntökupróf fyrir BS-nám í hestafræðum

Umsækjendur þurfa að hafa nokkra reynslu af því að umgangast og hirða hross. Kröfur í inntökuprófinu miðast við að umsækjandi hafi skilning á undirstöðuatriðum í samskiptum við hestinn og hafi öðlast grunnfærni í þeim. Umsækjandi þarf að vera fær um að stjórna hraða og stefnu hvert sem riðið er og hafa jafnvægi til að fylgja hestinum. Einnig að þekkja gangtegundirnar á hestbaki.

Verkefnið fer fram á skólahestum Hólaskóla og eru umsækjendur leiddir í gegnum það stig af stigi af reiðkennurum skólans. Í inntökuprófinu leggur umsækjandinn við og á hestinn og sýnir fet, brokk, stökk og tölt í reiðhöll þar sem riðinn er allur völlurinn, baugar og slöngulínur.

Inntökupróf vegna náms í hestafræðum eru fyrst og fremst leiðbeinandi og fara fram heima á Hólum í ágúst ár hvert, um það leyti sem námið á Hvanneyri hefst.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is