Hestamennska, samfélag og lög

Nýverið var haldið málþing í Leicester í Bretlandi undir yfirskriftinni „Horses, Society and Law: Past, Present and Future“. Var það De Montfort University í Leicester sem skipulagði málþingið. Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við Ferðamáladeild hélt þar tvo fyrirlestra. Sá fyrri fjallaði um hestamennsku og samfélög þar sem þróun klasa í hestamennsku á Norðurlandi vestra var tekin sem dæmi. Meðhöfundur að því erindi var Runólfur Smári Steinþórsson prófessor við Háskóla Íslands. Seinna erindi Ingibjargar fjallaði um rannsókn sem unnið er að á vegum Ferðamáladeildar um Landsmót hestamanna (LM) sem viðburð. Sérstaklega voru kynntar niðurstöður úr rannsókn á viðhorfum og upplifun heimamanna í Skagafirði í tengslum við LM sem haldið var á Hólum sumarið 2016. 
 
Á málþinginu var einnig fjallað um hestamennsku út frá lagalegu og siðferðislegu sjónarhorni. Meðal annars var fjallað var um velferðarmál og klónun hrossa og þau álitamál sem kunna að rísa í ræktun og keppni í tengslum við þróun þeirrar tækni. Lykilfyrirlesarar á málþinginu voru annars vegar Georgina Crossman sem vann m.a. með breska landsliðinu í hestaíþróttum í tengslum við ólympíuleikana í Ríó. Hún hafði áður skrifað doktorsritgerð þar sem hún bar saman skipulag hestageirans í Bretlandi, Svíþjóð og Hollandi. Hinn lykilfyrirlesarinn var ólympíugullverðlaunahafinn Sophie Wells sem þrátt fyrir fötlun hefur staðið framarlega í keppnum í fimiæfingum ófatlaðra á undanförnum árum.
 
Umræða á málþinginu var lífleg og áhugaverð og fyrirhugað er að niðurstöður rannsókna sem kynntar voru verði birtar í formi ritrýndra greina í sérhefti tímaritsins Contemporary Issues in Law
Ráðstefnuhópurinn. Mynd: Jonathan Merritt.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is