Hestaviðburðir - ráðstefna og ritstjórnarfundur í Noregi | Háskólinn á Hólum

Hestaviðburðir - ráðstefna og ritstjórnarfundur í Noregi

Í vikunni 3. – 7. júní sl. tóku þær Guðrún Helgadóttir prófessor og Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við Ferðamáladeild þátt í ráðstefnunni „Sports and the Environments – Policies, Values and Sustainability“ sem haldin var í Bø á Þelamörk í Noregi.
 
Þar héldu þær fyrirlestra í málstofu um hestaviðburði sem  stýrt var af Guðrúnu. Fjallaði Ingibjörg um markhópa og ímyndarsköpun hestaviðburða en Guðrún um sjálfbærni hestaviðburða. Í málstofunni héldu einnig fyrirlestra þær Kari Jæger frá The Arctic University of Norway og Katherine Daspher frá Leeds Beckett University í Bretlandi en þær taka báðar þátt í rannsóknum á Landsmóti hestamanna sem stýrt er af Ferðamáladeild. 
 
Þessa viku var jafnframt unnið að undirbúningi bókar um fólk, hesta og viðburði sem fyrirhugað er að komi út á ensku árið 2020. Bókin byggir að töluverðu leyti á rannsóknum Ferðamáladeildar á Landsmóti hestamanna á undanförnum árum og er henni ritstýrt af Katherine, Guðrúnu og Ingibjörgu. Ásamt þeim vinna  að ritun bókarinnar aðilar frá Svíþjóð, Noregi og Frakklandi auk Íslands. 
 
Er samstarfsaðilum sem og ráðstefnuhöldurum við Háskólann í Suðaustur-Noregi í Bø þakkað kærlega fyrir góðar móttökur.
 
Ingibjörg Sigurðardóttir
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is