Hólamenn á HM í Hollandi 2017

Heimsmeistaramót eru hápunktur keppnishestamennsku í Íslandshestaheiminum. Mótin eru haldin annað hvert ár, til skiptis við Landsmótin hér á Íslandi. Að þessu sinni var mótið haldið í Oirschot í Hollandi. 
 
Það er skemmst frá að segja að mótið var allt hið glæsilegasta og líklega það best heppnaða frá upphafi. Hvar sem borið er niður var allt til fyrirmyndar, jafnt í framkvæmd sem aðstöðu.
 
Þátttaka í móti sem þessu krefst mikils undirbúnings en nær svo hápunkti á vellinum á sjálfan keppnisdaginn. Á mótinu  gefst auk þess gott tækifæri til að skoða strauma og stefnur í þjálfun og reiðmennsku á alþjóðlegum vettvangi og má að sumu leyti líkja því við símenntunarnámskeið fyrir reiðkennara og keppnisknapa. Starfsfólk Hólaskóla tók virkan þátt í mótinu á ýmsan hátt og hér verður drepið á það helsta.
 
Fyrstan skal frægan telja Þórarin Eymundsson sem kepppti fyrir Íslands hönd á Narra frá Vestri-Leirárgörðum. Þórarinn tefldi Narra fram í fimmgangi, tölti T1 og gæðingaskeiði. Hann var efstur eftir forkeppni í fimmgangi en í öðru sæti í úrslitum og segja má að hann hafi verið hársbreidd frá heimsmeistaratitlinum, þar sem einungis munaði þremur hundraðshlutum á einkunnum fyrir fyrsta og annað sæti. Þórarni tókst einnig vel til í tölti og gæðingaskeiði og skilaði árangurinn honum öðru sæti í samanlögðum fimmgangsgreinum.
 
Artimisia Bertus keppti fyrir hönd Hollands, á Korgi frá Ingólfshvoli. Hún náði góðum árangri í fjórgangi þar sem hún endaði í 4. sæti.Vert er að rifja upp að á Íslandsmótinu fyrr í sumar hlaut Artemisia 1. sæti í fjórgangi, á Korgi.  
 
Mette Mannseth var aðalþjálfari norska landsliðsins og naut við það aðstoðar Gísla Gíslasonar, enda ærinn starfi. Náðu nokkrir liðsmenn þeirra ágætum árangri á mótinu.
 
Anton og Inga María aðstoðuðu nokkra knapa frá ýmsum löndum, unga sem aldna. Einnig  má nefna að þau ræktuðu og tömdu Fönix frá Syðra-Holti sem Johanna Tryggvason keppti á og varð tvöfaldur heimsmeistari. 
 
Ekki má gleyma kynbótasýningunum á HM. Hver þátttökuþjóð má senda eitt hross til keppni í hverjum hinna sex flokka kynbótahrossa: Fimm vetra, sex vetra, sjö vetra og eldri – hryssur og stóðhestar.  Þórálfur frá Prestsbæ keppti fyrir hönd Íslands, í flokki stóðhesta sjö vetra og eldri, og hafnaði í öðru sæti, eftir vel heppnaðar sýningar. Sýnandi Þórálfs var Þórarinn Eymundsson. 
 
Það má svo að endingu geta þess að fjölmargir nemendur skólans - fyrr og nú - sem og fyrrum kennarar okkar voru þátttakendur og/eða þjálfarar á HM í Hollandi.
 
Heimild: Anton Páll Níelsson og Þórarinn Eymundsson. Myndir birtar með leyfi Þórarins.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is