Hróður Hestafræðideildar berst víða

Hestafræðideild Háskólans á Hólum er reglulega til umfjöllunar í ýmiss konar tímaritum, innlendum sem erlendum. Gjarna er um að ræða sérhæfð hestatímarit, ýmist helguð Íslandshestamennsku eða hestamennsku almennt, en einnig almennar landkynningar þar sem íslenski hesturinn og Hólaskóli koma við sögu. Áhugasömum má til dæmis benda á þessar greinar, sem birst hafa nýlega:

Fyrir stuttu barst okkur afrit af greininni Reiten als Studiegang úr tímaritinu PferdeWoche, stærsta hestatímariti sem gefið er út í Sviss. Þarna er á ferðinni allítarleg umfjöllun um námið við deildina, kennsluaðferðir, inntökuskilyrði o.fl. Einnig er aðeins komið inn á Knapamerkin, og að lokum er rætt við Stefanie Wermelinger, Svisslending sem brautskráðist frá deildinni með BS-gráðu í reiðmennsku og reiðkennslu vorið 2014. Greinina, sem er eftir Noemi Ehrat og er á þýsku, má nálgast hér á vef tímaritsins.

Á bls. 48 - 51 í 1. tölublaði Iceland Review 2017 er In Harmony with Horse, eftir Eygló Svölu Arnarsdóttur. Hér er önnur  allítarleg kynning á deildinni og starfinu sem þar fer fram, að þessu sinni á ensku. Töluverður hluti greinarinnar byggir á viðtali við Telmu Tómasson sem brautskráðist sem reiðkennari héðan sumarið 2013, en einnig er rætt við núverandi Hólanema. Meðal annars er komið inn á forystuhlutverk Hestafræðideildarinnar í þróun þjálfunar- og tamningaaðferða, ekki síst m.t.t. til velferðar hesta.

Einnig má benda á 11. tölblað Eiðfaxa 2016. Á bls. 48 - 49 er sagt frá ráðstefnu sem haldin var í desember sl. undir yfirskriftinni Íslensk hrossarækt í 100 ár. Háskólinn á Hólum var meðal þeirra sem að ráðstefninni stóðu, og nokkrir af starfsmönnum Hestafræðideildarinnar voru þarna frummælendur. 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is