Hugvísindaþing 2017 - Háskólinn á Hólum tekur þátt | Háskólinn á Hólum

Hugvísindaþing 2017 - Háskólinn á Hólum tekur þátt

Hugvísindaþing er árviss ráðstefna Hugvísindastofnunar þar sem fram er borið það helsta í fræðunum, í málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Hugvísindaþing 2017 er haldið dagana 10. og 11. mars. 
Dagskrá þingsins hefst kl. 12:00 með þingsetningu forseta Hugvísindasviðs HÍ og hátíðarfyrirlestri forseta Íslands.
Frá kl. 13:00 á föstudag og fram til kl. 16:30 á laugardag er hægt að velja milli fjöldans alls af málstofum þar sem fjalalð er um margvísleg málefni.
 
Háskólinn á Hólum á sinn fulltrúa meðal fyrirlesara á Hugvísindaþingi 2017: Skúli Skúlason. prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild, flytur erindi í málstofunni Við dýrin: Um landbúnað og þróun, eðli og atferli manna og málleysingja. Í henni verður fjallað um nokkrar þeirra spurninga sem nýjar aðstæður í landbúnaði og ný vísindaleg þekking vekja. Meðal annars verður spurt um hvernig eigi að hugsa landbúnað á komandi öld, hvaða gildi liggi dýraeldi til grundvallar og hvað sé eðlilegt atferli þegar dýr eiga í hlut.
 
Innlegg Skúla nefnist Uppruni, þróun og umhverfi okkar dýranna - skyldleiki, samlíf og verðmætamat. Þar mun hann í fyrsta lagi rekja sameiginlegan uppruna manna og annarra dýra og ræða almennt um skyldleika lífvera og lífsforma, en jafnframt hvað aðgreini einingar og hópa (t.d. tegundir). Í öðru lagi skoðar hann þennan breytileika með tilliti til uppsprettu verðmæta sem felast í þróun lífsins og margháttuðum tengslum lífsforma. Að lokum ræðir hann um það sem vitað er um veruleika og tengslaheim dýranna í ljósi ofangreinds, og á hvern hátt megi nýta þá þekkingu til að móta sameigilega sýn á þau gildi sem þar skipta máli, til að móta samlíf dýra og manna með viðunandi hætti.
 
Þessi málstofa verður haldin í stofu 052 í Aðalbyggingu HÍ, föstudaginn 10. mars kl. 15:00 - 17:00.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is