Íslenskt-finnskt samstarf um menntun í ferðamálum

Í liðinni viku fór hópur frá Háskólanum á Hólum, Háskóla Íslands og Rannsóknamiðstöð ferðamála til Roveniemi í Finnlandi, til fundar við kollega í Stofnun um samstarf í ferðaþjónustu (e. Multidimentional Tourism Institute (MTI), ). Ferðin var farin með styrk úr menntaáætlun Erasmus+, en það voru Finnarnir sem buðu til fundarins og stóðu fyrir metnaðarfullri og þéttri dagskrá.
 
MTI stofnunin er samstarfsvettvangur Háskólans í Lapplandi, Fagháskóla Lapplands og Ferðamálaskóla Lapplands. Markmiðið með stofnuninni er að leiða saman fræðafólk og kennara aðildarskólanna og nýta þannig sérþekkingu í ferðamálafræðum og ferðamálum í Lapplandi. Við stofnunina starfa 120 manns og 1200 nemendur stunda þar nám. 
 
Markmið ferðar íslenska hópsins var að kanna samstarfmöguleika íslensku og finnsku skólanna. Meðal þess sem kom til umræðu var skiptinám fyrir nemendur skólanna, þar á meðal möguleikinn á allt að einnar annar skiptinámi í bóklegum námskeiðum, og/eða verknámi í allt að þrjá mánuði. Þá voru ræddir möguleikar á rannsóknarsamstarfi.
 
Auk þess að funda um samstarfsmöguleika, kenndi íslenski hópurinn námskeiðið „Sharing Space with Tourism“, fyrir nemendur í grunn- og framhaldsnámi í ferðamálafræðum á meðan á dvölinni stóð. 
 
Finnlandsfarar
Frá vinstri: Anna Vilborg Einarsdóttir (HH), Magnús Haukur Ásgeirsson (HÍ), Guðrún Þóra Gunnarsdóttir (RMF), Soiie Veijola (UL), Laufey Haraldsdóttir (HH), Gunnar Þór Jóhannesson (HÍ) og Outi Rantala (UL). 
 
7. nóvember 2016. Laufey Haraldsdóttir.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is