Kennslusýning - gæðingafimi

Nú er komið að árlegri kennslusýningu brautskráningarnema til BS-gráðu í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum. Að þessu sinni verður haldið suður yfir heiðar, á Hestadaga 2017. Sýningin verður haldin í Samskipahöllinni (Sprettshöllinni) laugardaginn 29. apríl og hefst dagskráin kl. 10 um morguninn.
 
Meginþema sýningarinnar er gæðingafimi. Markmiðið er að auka skilning áhorfenda á gæðingafimi sem keppnisgrein, hvort sem er fyrir atvinnumenn eða áhugamenn, yngri sem eldri. Um morguninn verður farið yfir ýmis atriði varðandi gæðingafimina, eða eins og nemendurnir orða það sjálfir á Facebook-síðu viðburðarins: „...hvað við viljum sjá í gæðingafimi, hvernig er hægt að setja upp sýningu og hvernig dómarar dæma keppnisgreinina“.
 
Klukkan 13 hefst síðan keppni í gæðingafimi og hafa ýmsir reyndir knapar staðfest þátttöku sína, enda vegleg sigurlaun í boði. Við bendum aftur á Facebook - að þessu sinni á myndbandsstúf hjá Telmu Tómasson. Reiknað er með að keppnin standi fram til klukkan 17.
 
Við hvetjum áhugasama til að mæta í Sprettshöllina og þorum að lofa miklum fróðleik og góðri skemmtun. Allir velkomnir og enginn aðgangseyrir.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is