Kvíðinn í samfélaginu | Háskólinn á Hólum

Kvíðinn í samfélaginu

Á dögunum var haldin ráðstefna að Hólum í Hjaltadal undir yfirskriftinni Kvíðinn í samfélaginu. Ráðstefnan var haldin að frumkvæði Guðbrandsstofnunar, sem er samstarfsvettvangur Háskólans á Hólum, Háskóla Íslands og Þjóðkirkjunnar. Auk Guðbrandsstofnunar komu Landlæknisembættið, Geðhjálp, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Félag íslenskra músíkþerapista að skipulagningu ráðstefnunnar.
 
Efnistök fyrirlesara voru mjög fjölbreytt og kvíðavaldar greindir út frá lífsháttum, lífshlaupi, samfélagsumræðu og fjármálum og fjármálastefnu Íslendinga, svo fátt eitt sé nefnt. Öll erindi áttu það sammerkt að mikil virðing var borin fyrir kvíða; að hann er eðlilegur og má nýta til góðs sé hann innan viðráðanlegra marka, en jafnframt kom fram að óstjórnlegur kvíði er böl sem má bæta. Margar leiðir til bjargar voru ræddar og deildu ráðstefnugestir af auðmýkt reynslu sinni af glímunni við kvíðann og leiðum til bættrar heilsu.
 
Voru þátttakendur sammála um að engin ein leið hentar öllum. Því er vel, að fjölmargar stofnanir, félagasamtök og einstaklingar hafa sérhæft sig í björgum sem geta gagnast gegn kvíða. 
 
Við þökkum öllum sem sóttu Hóla heim af þessu tilefni fyrir komuna.
 
Erla Björk Örnólfsdóttir.
 
Bent er á umfjöllun um ráðstefnuna, hér á vef Kirkjunnar.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is