Kynning á lokaverkefnum nemenda Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna | Háskólinn á Hólum

Kynning á lokaverkefnum nemenda Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Nemendur Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem dvalið hafa í Skagafirði undanfarna fimm mánuði, kynntu lokaverkefni sín í gær, þann 8. mars. Verkefnin hafa þau unnið undir leiðsögn sérfræðinga Háskólans á Hólum. Verkefnin eru fjölbreytt, en tengjast öll fiskeldi á einn eða annan hátt.
 
Janeth Rukanda og Momodou Saidyleigh gerðu úttektir á fiskeldi í heimalöndum sínum, Tansaníu og Gambíu, og nutu við það handleiðslu Ólafs Sigurgeirssonar. Bæði vinna þau við yfirstjórn fiskeldismála og verkefnin verða mikilvægt framlag í framtíðarstefnumótun í fiskeldi í heimalöndum þeirra.
 
Paul Nkeze og Elizabeth Forgako eru frá Kamerún. Paul Nkeze vann verkefni um vatnsendurnýtingarkerfi undir leiðsögn Helga Thorarensen, en slík kerfi hafa nýlega verið tekin í notkun við seiðaframleiðslu í Kamerún og gefið mjög góða raun. Elizabeth Forgako vann verkefni um framleiðslu á einkynja tilapíu og leiðsögnin var í höndum þeirra Bjarna K. Kristjánssonar, Camille Leblanc og David Ben Haim. Í verkefninu kannaði hún ýmsa möguleika á framleiðslu á einkynja tilapíu sem gætu aukið verulega framleiðni í fiskeldi. Á þessu ári fara Ólafur Sigurgeirsson, David Ben Haim og Helgi Thorarensen til Kamerún og halda þar námskeið um fiskeldi á vegum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og þar verða verkefni Nkeze og Forgako mikilvægt framlag.
 
Nguyen Thi Thuy Giang frá Víetnam vann verkefni undir leiðsögn Bjarnheiðar Guðmundsdóttur, sem ættuð er úr Fljótunum, en vinnur hjá Háskóla Íslands. Verkefnið var hluti af stóru alþjóðlegu rannsóknaverkefni sem Helgi Thorarensen stýrir og snýst um að undirbúa kynbætur til þess að auka sjúkdómaþol bleikju.
 
Brátt munu þessir nemendur halda heim á leið með gagnlega þekkingu í farteskinu og bretta upp ermar við uppbyggingu og þróun fiskeldis í heimalöndum sínum.
 
Myndina tók Helgi Thorarensen.
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is