Líkamlegt álag á íslenska hesta á 100 m flugskeiði

Nýlega birtu vísindamenn við Hestafræðideild Háskólans á Hólum, í samstarfi við sænska landbúnaðarháskólann í Uppsala (SLU), vísindagrein  í tímaritinu Comparative Exercise Physiology og er hún aðgengileg öllum til aflestrar hér á netinu.  Greinin lýsir álagi á íslenska skeiðhesta á 100 m flugskeiði og byggir á rannsókn sem gerð var við Hólaskóla vorið 2012.
 
Kappreiðar á skeiði eru elsta keppnisform sem þekkist á íslenskum hestum og sem enn er keppt í. Þrátt fyrir það og ólíkt því sem þekkist með aðra kappreiðahesta (t.d. enska fullblóðshestinn og sænska kerrubrokkarann) hafa þar til nú engar rannsóknir verið gerðar á því hversu mikið líkamlega álagið er við skeiðkappreiðar hjá íslenskum hestum.
 
Markmið rannsóknarinnar var að mæla líkamlegt álag á íslenska hesta á 100 m flugskeiði, fylgjast með hestunum í 30 mínútna endurheimt eftir skeiðið og skoða áhrif af knapa á álagið.
 
Í rannsóknina voru notaðir níu fullorðnir hestar (aldur 8-18 vetra) og tveir knapar með mikla reynslu af að ríða skeið. Hestarnir voru allir skólahestar sem höfðu verið notaðir við skeiðkennslu við Háskólann á Hólum og áttu allir nema einn skráðan árangur í keppni í 100 m flugskeiði áður en rannsóknin hófst. Í rannsókninni tók hver hestur þátt í 100 m flugskeiði (uppsett tilraun sem líkti eftir 100 m skeiðkappreiðum) tvisvar sinnum, með þriggja daga hvíld á milli. Hvor knapi reið öllum hestunum einu sinni. Hlutfall þunga knapanna tveggja með hnakk af þunga hestanna var 32,4% og 23,8%. Hjartsláttur/púls hestanna var mældur með púlsmælir í skeiðsprettunum og endurheimt, öndunartíðni hestanna var talin eftir skeiðsprettina og í endurheimt, og blóðsýni voru tekin eftir sprettina og í endurheimt til að mæla mjólkursýru og fleiri blóðþætti.
 
Niðurstöður 
Allir hestarnir í rannsókninni voru að minnsta kosti með einn gildan sprett (af tveimur) hjá hvorum knapa. Meðalhraðinn á sprettunum var 10,4 m/s (37 km/klst) og það var ekki munur á hraðanum í fyrri og seinni spretti, né var munur á hraða hestanna eftir knöpum. Meðalpúlsinn var yfir 200 slög/mín og var 98% af hæsta púlsi sem mældist hjá hestunum og mjólkursýrumagnið var 12 mmól/L eftir fyrri sprettinn og 18 mmól/L eftir seinni sprettinn. Hlutfall rauðra blóðkorna var frekar lágt (ca 44%) miðað við það sem þekkist í sumum öðrum keppnishestakynjum (sem geta haft yfir 60%). Eftir 30 mínútna endurheimt eftir skeiðsprettina höfðu hestarnir ekki náð hvíldarpúls né hvíldargildum mjólkursýru, en magn rauðra blóðkorna var búið að ná hvíldargildum.
Það var ekki munur á álagi hestanna eftir knöpum í skeiðsprettunum sjálfum en það var munur þegar allt álagið var mælt frá upphitun og þar til eftir 30 mínútna endurheimt, en þá  mældist álagið á hestana meira hjá þyngri knapanum. Í þessari rannsókn var ekki hægt að greina hvort knapaáhrifin væru vegna líkamsþyngdar knapans, reiðlags eða beggja þessara þátta. Útfrá þessum niðurstöðum má ætla að knapaáhrifin séu líkleg til að skipta meira máli ef hestarnir keppa í fleiri en einn dag samfellt eða ef stutt er á milli keppnisdaga, samanborið við keppni í einn dag.
 
Ályktun og hagnýting niðurstaðna
Niðurstöðurnar sýna að 100 m flugskeið er líkamlega krefjandi fyrir íslenska hesta og loftfirrt efnaskipti (gerast án súrefnis) eru afgerandi fyrir árangur hestanna í skeiðkappreiðum. Getan til að virkja hraða vöðvaþræði og mynda mikla mjólkursýru er mikilvæg fyrir árangurinn.
Það er því mikilvægt að þjálfa loftfirrt efnaskipti fyrir árangur í 100 m skeiðkappreiðum. Það er t.d. hægt að gera með því að þjálfa í brekkum, með lotuþjálfun (interval þjálfun) en þá eru hraðir sprettir og hvíld eða hægara á milli, og almennt með því að þjálfa hraða og styrk (hratt brokk, stökk eða skeið). Almennt gildir að þegar loftfirrt efnaskipti eru þjálfuð er mikilvægt að það sé ekki of lengi í einu og að riðið sé hægt eða teknar hvíldir á milli. Einnig er mikilvægt að gefa frí eða hafa létta daga milli erfiðra þjálfunardaga.  Þolfþjálfun virkjar loftháð efnaskipti og getur því orðið á kostnað getu hestsins til loftfirðra efnaskipta og spretthraða hans. 
 
Greinin heitir „Líkamlegt álag á 100 m flugskeiði, eftirlíking af keppni, og áhrif af knapa“ (Enskt heiti: Physiological response to an experimental 100 m flying pace race in Icelandic horses and effect of rider). Sjá slóðina:  http://www.wageningenacademic.com/doi/pdf/10.3920/CEP170015.
 
Frétt og myndir af skólahestunum Bokka (hér fyrir neðan, knapi Erlingur Ingvarsson) og Stíg (litla myndin, knapi Þorsteinn Björnsson) á flugskeiði: Guðrún. J. Stefánsdóttir.
 
Bokki á flugskeiði - knapi Erlingur Ingvarsson
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is