Lokaverkefni nemenda í Ferðamáladeild hlaut verðlaun SAF og RMF | Háskólinn á Hólum

Lokaverkefni nemenda í Ferðamáladeild hlaut verðlaun SAF og RMF

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda/nemendum við háskóla hér á landi. Í ár eru verðlaunin veitt í 15. sinn og eru þau veitt í tveimur flokkum; annars vegar fyrir verkefni úr framhaldsnámi og hins vegar fyrir verkefni úr grunnnámi. 
 
Í ár, 2020, hlutu tveir nemendur úr Ferðamáladeild Háskólans á Hólum verðlaun fyrir framúrskarandi verkefni í BA námi. Það eru þær Elva Dögg Pálsdóttir og Sólveig Árnadóttir og var leiðbeinandi þeirra Anna Vilborg Einarsdóttir lektor við Ferðamáladeild. 
 
Verkefnið ber heitið Beint flug Super Break til Akureyrar – Væntingar farþega og upplifun. Það var valið úr hópi tilnefndra verkefna úr grunnnámi, allt mjög flott og frambærileg verkefni. 
 
Verðlaunahafar eru valdir af þriggja manna dómnefnd sem skipuð er einum fulltrúa úr stjórn RMF, einum frá SAF auk starfsmanns RMF. Mat dómnefndar byggist á eftirfarandi þáttum:
 
Framlagi verkefnisins til nýsköpunar um ferðamál og ferðaþjónustu á Íslandi
Skýrleika markmiða og rannsóknarspurninga
Dýpt efnistöku
Gæða rannsóknavinnu og framsetningu niðurstaðna
Uppbyggingu, málfari og frágangi verkefnis
 
Tilkynnt var um verðlaunin á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar þann 6. maí síðastliðinn. Því miður var ekki hægt að afhenda verðlaunahöfunum verðlaunin við hátíðlega athöfn á staðnum vegna Covid-19. Háskólinn á Hólum óskar Elvu Dögg og Sólveigu innilega til hamingju með framúrskarandi lokaverkefni til BA gráðu sem og leiðbeinanda þeirra, Önnu Vilborgu. Megi þessi góði árangur verða öðrum nemendum hvatning til góðra verka. 
 
Ingibjörg Sigurðardóttir
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is