Meistaravörn í Verinu

Í gær varði Coralie Delarue meistararitgerð sína  við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum. Ritgerðin er á ensku og ber titilinn „Plasticity of trait divergence in threespine stickleback (Gasterosteus aculeatus) from Lake Mývatn, Iceland“.  Leiðbeinendur Coralie voru þau  Dr. Bjarni K. Kristjánsson , prófessor við deildina, og Dr. Katja Räsänen, sem starfar hjá rannsóknastofnuninni ETH/Eawag í Sviss. Prófdómari var Dr.  Sigurður Snorrason frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands en vörninni stýrði Dr. Stefán Óli Steingrímsson, dósent við Fiskeldis- og fiskalíffræðideildina. Vörnin, sem var vel sótt, fór fram í húsnæði deildarinnar í Verinu á Sauðárkróki. 
 
Í Mývatni, sem er eitt mest rannsakaða vistkerfi á Íslandi, má sjá sterka stigla í umhverfisþáttum (t.d. hita, dýpi og botngerð), sem og mikinn breytileika í tíma og rúmi. Í vatninu má finna fjölmarga hópa smádýra, sérstaklega ber að nefna mýlirfur og botnlægar krabbaflær sem eru mikilvæg fæða hornsíla (Gasterosteus aculeatus). Algengt er að aðskilnaður stofna vegna aðlögunar og náttúrulegs vals sé tengdur fæðu og/eða búsvæðavali. Því má leiða að því líkur að breytileiki, í tíma og rúmi, sem sjá má hjá fæðudýrum í Mývatni geti leitt til aðskilnaðar hornsílastofna vatnsins. Sem vísbendingu um að slíkur aðskilnaður eigi sér stað í Mývatni má sjá breytileika hjá hornsílum, hvað varðar útlit 
tengt fæðunámi og einnig líkamsstærð, og er hann líklega tilkominn sem svörun við breytileika í fæðu og hitastigi vatnsins.
 
Rannsóknir Coralie beindust að því hvort þessi breytileiki orsakist af erfðafræðilegum þáttum eða sveigjanlegu svipfari. Niðurstöður hennar benda sterklega til að samspil sveigjanlegs svipfars og erfðafræðilegra þátta móti aðskilnað hornsílastofna í Mývatni.
 
Coralie, sem er ættuð frá Normandí, kom hingað 2014 og er orðin sannur Hólamaður. Hún mun dvelja hér áfram í nokkra mánuði, áður en hún hverfur á vit nýrra ævintýra úti í hinum stóra heimi. 
 
Mynd Skúli Skúlason.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is