Menningarlandfræðingur og heimshornaflakkari til Hóla | Háskólinn á Hólum

Menningarlandfræðingur og heimshornaflakkari til Hóla

Dr. Amy Savener, frá Cinncinati í Ohio í Bandaríkjunum, hóf störf við Ferðamáladeildina á Hólum í byrjun ágúst 2016. Hún gegnir stöðu lektors við deildina, sinnir kennslu og stundar rannsóknir innan ferðamálafræði. 
 
Amy er með doktorsgráðu í menningarlandfræði og ferðamálafræði frá Indiana háskólanum í Bloomington í Bandaríkjunum, auk þess að hafa lokið meistarnámi í skipulagsfræðum og BA gráðu í blaðamennsku. Hún hefur stundað blaðamennsku og háskólakennslu samhliða námi.
 
Rannsóknaráhugi Amyar beinist að dreifðum byggðum þar sem ferðaþjónusta vex hratt. Hún hefur stundað rannsóknir þessu tengt í Guna Yala í Panama, Barahona í Dóminíska lýðveldinu og í landbúnaðarhéruðunum allt frá Norðaustur-Alsace í Frakklandi til Suðvestur-Saarland í Þýskalandi. Nú beinist áhugi hennar að hröðum vexti ferðaþjónustu á Íslandi og þá sérstaklega Norðvesturlandi. Hún hefur áhuga á að skoða hvernig vöxtur alþjóðlegrar ferðaþjónustu hefur áhrif á íslenska þjóð, menningu, innviði og mismunandi samfélög í dreifðum byggðum landsins. 
 
Amy kennir námskeiðin Rannsóknir og ferðamál, Heilsuferðaþjónustu og Sveitir og sjávarbyggðir. Þá heldur hún utan um Aðferðasmiðju á meistarastigi og leiðbeinir meistaranema sem beinir sjónum sínum að upplifun ferðamanna og samtali gesta og gestgjafa í gegnum nýtingu á rými og upplifanir.
 
Í byrjun nóvember hélt Amy fyrirlestur í opinni fyrirlestraröð Ferðamáladeildar, Vísindi og grautur. Fyrirlesturinn, sem hún nefndi Mass Tourism Invasion to an Indigenously-Governed (Rural) Archipelago in the Caribbean, byggði hún á doktorsrannsóknum sínum á eyjunni Guna Yala í Panama.
 
Meðfylgjandi mynd var tekin við það tilefni.
 
Laufey Haraldsdóttir.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is