Mette sigurvegari í Meistaradeild KS í hestaíþróttum | Háskólinn á Hólum

Mette sigurvegari í Meistaradeild KS í hestaíþróttum

Sigurvegari í einstaklingskeppni Meistaradeildar KS í hestaíþróttum 2020 er yfirreiðkennari Háskólans á Hólum, Mette Mannseth. Úr þessu fékkst  skorið á lokakvöldi mótaraðarinnar í gær, þegar keppt var í tölti T1 og flugskeiði gegnum Svaðastaðahöllina á Sauðárkróki. Mette varð í fyrsta sæti í fjórgangi, á hryssunni Skálmöld frá Þúfum og í öðru sæti í gæðingafimi á sömu hryssu. Hún varð einnig í öðru sæti í tölti, á List frá Þúfum. Í slaktaumatöltinu vermdi Mette þriðja sætið, á Hryðju frá Þúfum og í fimmgangi reið hún B-úrslit, á enn einu hrosssinu úr ræktun hennar og Gísla Gíslasonar, Kalsa frá Þúfum. Þá er reyndar ónefndur Vívaldi frá Torfunesi, sem Mette lagði gegnum höllina á flugskeiði og hreppti 9. sæti. Þess má einnig geta að árangur Mette og liðsfélaga hennar í Þúfnaliðinu skilaði þeim sigri í liðakeppninni í ár.
 
Í öðru sæti í einstaklingskeppninni varð Þórarinn Eymundsson, annar þekktur knapi úr röðum reiðkennara skólans. Lið hans, kennt við Hrímni, varð í öðru sæti í heildar-liðakeppninni og vann til dæmis liðakeppnina í tölti og fimmgangi.
 
Fleiri af reiðkennurum okkar tóku þátt í KS-deildinni í vetur, ýmist sem keppendur  eða starfsmenn og hið sama á við um allmarga nemendur Hestafræðideildar. Það yrði of langt mál að telja alla upp hér, en að lokum látum við þess getið að Konráð Valur Sveinsson stóð uppi sem sigurvegari í flugskeiði, á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu II, á nýju hallarmeti – 4,62 sekúndum. Konráð Valur er nemandi á 3. ári til BS-gráðu í reiðmennsku og reiðkennslu, 
 
Við óskum öllum þessum Hólamönnum innilega til hamingju.
 
Myndirnar eru fengnar af Facebook-síðu Meistaradeildar KS, með leyfi. 
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is