Nikulásarmessa í Auðunarstofu

Á degi heilags Nikulásar, 6. desember, hélt Sigríður Sigurðardóttir erindi í Auðunarstofu, á vegum Guðbrandsstofnunar. Erindið nefndi hún Nikulás karlinn - afvegaleidd fyrirmynd.

Í erindi sínu rakti Sigríður sögu Nikulásar, gjafmilds klerks frá Kale í Tyrklandi, Eftir andlátið (6. desember 425) reyndist hann öflugur til áheita og mörg kraftaverk voru tengd honum. Varð Nikulás fljótt verndari sjómanna og barna en síðar fleiri hópa - svo sem kaupmanna. Svo verðmætur var Nikulás talinn að líkamsleifum hans var stolið 1087. Árið 1197 var dómkirkja reist og vígð honum til vegsemdar, í Bari á Ítalíu. Þetta var ekki löngu áður en fyrsta veisla honum til heiðurs var haldin að Odda á Rangárvöllum 1220. Forsprakki þeirra veisluhalda var barnabarnabarn Sæmundar fróða og leiddi Sigríður líkur að því að vel gæti verið að Sæmundur fróði væri fyrsti Nikulás í sögu okkar Íslendinga.

Fram kom að frá þrettándu öld og til dagsins í dag hefur Nikulás ferðast víða og tekið miklum breytingum í útliti, en er alltaf gjafmildur og þjónar nú helst kaupmönnum um heim allan og er alls staðar vinsæll.

Við þetta sama tækifæri spilaði Katharina Sommermeier nokkur jólalög á fiðlu. Þess má til gamans geta að báðar eru þær heimamenn í Skagafirði - Sigríður (Sirrí á Ökrum) er safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga í Glaumbæ og Katharina (Rina í Garðakoti) er bóndi í Hjaltadal.

Hólabiskup bauð upp á heitt kakó og smákökur og er óhætt að segja að viðstaddir hafi átt notalega kvöldstund í Auðunarstofu, á Nikulásarmessu. 

(Byggt á upplýsingum frá fyrirlesara og öðrum viðstöddum).

 

Rina á fiðlunni

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is