Uppskerutími | Háskólinn á Hólum

Uppskerutími

Á síðustu dögum hefur Fiskeldis- og fiskalíffræðideild átt mikinn uppskerutíma, eins og komið hefur fram hér á vefnum. Sérfræðingar og nemendur við deildina tóku þátt í tveimur ráðstefnum, auk þess sem að Bjarni K. Kristjánsson flutti fræðsluerindi fyrir Hið íslenska náttúrufræðafélag, og var það vel sótt. 
 
Dagana 31. október og 1. nóvember var haldin alþjóðleg ráðstefna um bleikjurannsóknir. Þar voru flutt fimm erindi frá deildinni, auk þess sem einn af sérfræðingum hennar var meðhöfundur á einu erindi til viðbótar. 
 
Á líffræðiráðstefnunni, 26. – 28. október, var einnig góð þátttaka frá deildinni. Starfsfólk og nemendur hennar fluttu þar fimm erindi, auk þess að kynna fjögur veggspjöld. Enn fremur voru sérfræðingar deildarinnar meðhöfundar að tveimur erindum og einu veggspjaldi til viðbótar. 
 
Á ráðstefnunni voru veitt verðlaun fyrir besta erindi og veggspjald nemenda. Louise Vernier meistaranemi við deildina fékk verðlaun fyrir besta veggspjaldið, sem sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni. 
 
3. nóvember 2017, Bjarni K. Kristjánsson. Mynd: Karalea Cantera
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is