Leikið í náttúru Íslands | Háskólinn á Hólum

Leikið í náttúru Íslands

Staðbundin lota í námskeiðinu Útivist og upplifun, sem haldin var 26. og 27. september sl.

 
Nemendur í námskeiðinu Útivist og upplifun fóru í dagsgönguferð til að fræðast um hvernig hanna má upplifun í alls konar útivist. Gengið var um Hólaskóg og fram í dali, bál var kveikt og eftirréttir eldaðir, allt liðir í að læra um hönnun útiupplifunar.
 
Farið var í ýmsa leiki, sem nemendur höfðu undirbúið, í gönguferðinni. Markmið slíkra leikja, sem voru hver öðrum ólíkir, var að þjálfa samskipti og samstarf við aðra meðlimi hópsins og um leið tengja einstaklinginn við náttúru Íslands. Mannleg samskipti voru æfð, vandamál greind og með því ýtt undir lausnamiðaða hugsun. Sumir leikir höfðu hópefli að markmiði og geta slíkir leikir reynt á þægindaramma einstaklinga, sem er þá viðfangsefni sem nemandi þarf að glíma við. Um leið eru slíkir leikir góð leið til að brjóta ísinn og kynnast hvert öðru.
 
Námskeiðið er að mestu kennt utandyra, enda skiptir miklu máli að líkja eftir þeim aðstæðum sem ferðamenn eru í og um leið fá nemendur beint í æð þær mörgu áskoranir sem fylgja því að hanna ferðavöru fyrir útivist hérlendis.
Vaðið yfir á
 
Mynd 1. Vaðið yfir á, berum fótum. Áskoranir í náttúru Íslands geta verið margvíslegar. Þær geta bæði tengst upplifun einstaklings og því hvernig hópur vinnur saman að þvi að takast á við þær.
Göngulandslag
Mynd 2. Göngulandslag – Gengið var um skóglendi, á fjárgötum, yfir mýrlendi, í þúfum, á göngustíg og á malarvegi. Mismunandi undirlag og erfiðleikastig sem aðstoðaði við að kynnast eigin þreki og þægindaramma.
Hópleikur
Mynd 3. Hópleikur - til að kynnast eigin viðbrögðum og hvernig það er að vera í hópi við útiveru var farið í ýmsa leiki sem tengdu þátttakendur hvern við annan, sem og við náttúruna. Hér fékk hópurinn það hlutverk að segja sameiginlega frá helstu atriðum í Grettissögu.
Hólar á haustkvöldi
Mynd 4. Eftir göngu dagsins var farið í stutta kvöldgöngu, þar sem kveikt var bál og smá-eftirréttir eldaðir yfir því. Á leiðinni blasti kvöldsólin við og önnur birta, önnur lykt og tilfinning myndaðist en um daginn. Þar með fengu nemendur enn eina myndbirtingu til að tengja við íslenska náttúru. Mikilvægt er að nýta sér öll skynfærin til að tengja sig sjálfan og ferðamenn við íslenska náttúru og styrkja þannig samband manns og náttúru.
 
3. nóvember 2017. Kjartan Bollaso
 

n.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is