Ný fræðigrein frá Ferðamáladeild | Háskólinn á Hólum

Ný fræðigrein frá Ferðamáladeild

Í desemberhefti tímaritsins Scandinavian Journal of  Hospitality and Tourism birtist fræðigreinin „Social sustainability of tourism in Iceland: A qualitative inquiry“.  Höfundar greinarinnar hafa allir á einhverju tímabili sinnt kennslu og fræðistörfum við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum.
 
Höfundarnir eru Guðrún Helgadóttir prófessor við Háskólann í Bö í Noregi og við Ferðamáladeild, Anna Vilborg Einarsdóttir lektor í Ferðamáladeild, Georgette Leah Burns prófessor og fyrrum deildarstjóri Ferðamáladeildar, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og  fyrrum deildarstjóri Ferðamáladeildar og Jóhanna María Elena Matthíasdóttir meistaranemi í ferðamálafræði við Háskólann á Hólum og stundakennari.  
 
Greinin byggir á rannsókn sem gerð var árið 2015, á viðhorfum heimamanna til ferðafólks á fjórum ólíkum stöðum á landinu, þ.e. Hellu, Ísafirði, Húsavík og Reykjavík. Tekin voru viðtöl við heimamenn á stöðunum, samtals 25 manns. Niðurstöður sýna að heimamönnum er annt um að upplifun ferðafólks af heimabænum þeirra sé góð. Heimamenn hafa almennt jákvæð viðhorf til ferðaþjónustu en upplifa nokkra truflun í sínu daglega lífi vegna fjölda ferðafólks og hafa áhyggjur af lífsgæðum og þanþoli heimamanna, stöðu ábyrgrar ferðaþjónustu og sjálfbærni í starfsemi og stjórnun ferðaþjónustufyrirtækja. Um leið viðurkenna þeir mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir samfélagið. Í greininni er fjallað um félagslega þætti ferðaþjónustu og ályktað að félagsleg sjálfbærni, skilvirk jafnt sem efnisleg, sé gagnlegt hugtak til að taka á málum í þróun ferðaþjónustu.
 
Rannsóknin var styrkt af Ferðamálastofu.  
 
 
Anna Vilborg Einarsdóttir. Myndir Jóhanna M. E. Matthíasdóttir.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is