Nýjar greinar frá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild

Á síðustu misserum hafa komið út þrjár ritrýndar greinar þar sem sérfræðingar við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild eru meðal höfunda. 
 
Camille Leblanc lektor, er meðal höfunda að grein sem nefnist „Egg size versus number of offsping trade-off: Female age rather than size matters in a domesticated Arctic charr population“ sem birtist í tímaritinu Evolutionary Biology. Í greininni fjalla Emilien Lasne, Camille Leblanc og Christian Gillet um hvernig lífverur tengja saman fjölda og stærð ungviðis til þess að hámarka afkomu sína á lífsleiðinni. Þau rannsökuðu þetta í eldisbleikju. Niðurstöður sýndu að hrygnur sem eru misgamlar beina svipuðu hlutfall af þeirri orku, sem þeim stendur til boða, í æxlun. Hvað snertir samband stærðar og fjölda afkvæma virtist aldur skipta mestu máli. Stærri hrygnur áttu fleiri afkvæmi, bæði milli og innan aldurshópa, en tengsl stærðar fiska við hrognastærð voru ekki greinileg innan aldurshópa. 
 
Stefán Óli Steingrímsson prófessor er einn af höfundum greinarinnar „Territory size decreases minimally with increasing food abundance in stream salmonids: Implications for populatin regulations,“ er birtist í tímaritinu Journal of Animal Ecology. Hér fjalla James W.A. Grant, Laura K. Weir og Stefán Óli Steingrímsson um áhrif breytts á fæðuframboðs á þéttleika lífvera sem verja búsvæði. Þau beina sjónum að ungum laxfiskum í straumvatni, sem eru tilvaldir til slíkra rannsókna þar sem þeir verja iðulega óðul til að tryggja sér aðgang að smádýrum sem berast með straumnum. Niðurstöðurnar benda til þess að aukið fæðuframboð hafi hófleg áhrif á stærð óðala og þar af leiðandi á þéttleika laxfiska í ám. Nánar tiltekið bendir rannsóknin til þess, að til að helminga óðalsstærð og þar með að tvöfalda hámarksþéttleika seiða, þurfi um 20-falda aukningu í fæðuframboði, sem erfitt væri að réttlæta í náttúrulegum ám, t.d. vegna hættunnar á ofauðgun.. Þessi nýja þekking  eykur skilning okkar á atferlis- og stofnvistfræði laxfiska í ám, og öðrum dýrum sem verja óðul. 
 
Bjarni K. Kristjánsson prófessor, Camille Leblanc lektor og Skúli Skúlason prófessor, eru meðal höfunda að grein sem nefnist „Phenotypic plasticity in the morphology of small benthic Icelandic Arctic charr (Salvelinus alpinus)“ og er birt í tímaritinu Ecology of Freshwater Fish.  Í þeirri grein fjalla Bjarni K. Kristjánsson, Camille Leblanc, Skúli Skúlason, Sigurður S. Snorrason og David L. G. Noakes um sveigjanleika í svipfari hjá dvergbleikju á Íslandi og hvernig hann tengist umvherfisþáttum. Með eldistrilraun sýndu þau fram á að dvergbleikjustofnar eru töluvert sveigjanlegir þegar kemur að útliti, en tengsl við umhverfisþætti voru óljós. 
 
18. október 2017. Bjarni K. Kristjánsson.
 
Vistfræðitilraun
 
 
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is