Opið fyrir umsóknir - ný námsleið

Venju samkvæmt var opnað fyrir umsóknir um nám við Háskólann á Hólum, á árlegum Háskóladegi.

Háskóladagurinn í Reykjavík var haldinn hinn 4. mars sl. og á Háskólatorgi HÍ var hópur knárra Hólamanna mættur til að kynna Háskólann á Hólum og þær námsleiðir sem hér er boðið upp á. Nokkrar myndir frá deginum er að finna á Facebook-síðu skólans. 

Að þessu sinni býður Ferðamáladeild Háskólans á Hólum upp á nýja námsleið, BA-nám í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta, eða það sem á ensku kallast Hospitality Management. Þetta nám er sérsniðið að íslenskri ferðaþjónustu og er með sterka tengingu við leiðandi fyrirtæki í greininni. Áhersla er lögð á stjórnun ferðaþjónustu í víðu samhengi, allt frá stærri hótelum og veitingastöðum til móttöku gesta í þjónustumiðstöðum og umsjónar ferða um hálendið.

Háskóladagurinn markar upphaf raðar háskólakynninga, vítt og breitt um landið, og yfirlit yfir þær má til dæmis nálgast hér á vef Háskóla Íslands. Fulltrúar Háskólans á Hólum munu verða fyrir svörum á öllum þessum stöðum og við hvetjum alla áhugasama til að nota tækifærið til að kynna sér hinar fjölbreyttu námsleiðir sem í boði eru við skólann.

Opið verður fyrir umsóknir til 5. júní nk.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is