Prófessor Stefán Óli Steingrímsson | Háskólinn á Hólum

Prófessor Stefán Óli Steingrímsson

Dr. Stefán Óli Steingrímsson hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum. 
 
Stefán Óli hefur nú starfað við Háskólann á Hólum samfleytt frá 2003, en hann hafði áður unnið hjá Hólaskóla með hléum frá 1993 til 1997. Stefán lauk doktorsprófi í líffræði árið 2004, frá Concordia háskóla í Montreal í Kanada, meistaraprófi frá sama skóla árið 1996 og B.S. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1992. 
 
Stefán Óli hefur kennt við allar deildir Háskólans á Hólum, auk þess að hafa komið að kennslu við aðra opinbera háskóla á Íslandi. Hann hefur kennt ýmis námskeið um náttúru og vistfræði Íslands og um umhverfismál fiskeldis, auk þess að kenna aðferðafræði við rannsóknir og í háskólanámi. Auk kennslu í námskeiðum hefur Stefán leiðbeint fjórum meistaranemum og einum doktorsnema sem hafa lokið sínu námi og nú eru tveir meistaranemar og einn doktorsnemi  undir handleiðslu hans.
 
Stefán hefur stundað rannsóknir á atferlisvistfræði laxfiska í straumvatni. Rannsóknir hans snúa helst  að því hvernig laxfiskar í ám (lax, urriði, og bleikja) nýta, deila og keppa um búsvæði og auðlindir í tíma og rúmi, og hvaða afleiðingar þetta atferli hefur fyrir vöxt, viðgang og stofnvistfræði þessara fiska. Í þessum tilgangi hefur hann, ásamt nemendum sínum, m.a. rannsakað óðals- og fæðuatferli laxfiska, dægursveiflur í virkni þeirra við fæðunám, og hvernig þetta atferli þeirra mótast af vistfræðilegum þáttum (t.d. fæðuframboði, vatnshita og straumhraða) sem og eiginleikum einstaklinga (t.d. stærð og persónuleika). Rannsóknir hans má kynna sér frekar, hér á vefnum
 
Auk framanritaðs hefur Stefán Óli verið fulltrúi Háskólans á Hólum í fjölmörgum nefndum er tengjast sérsviði hans.
 
23. október 2017. Bjarni K. Kristjánssson.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is